Áramótakveðja

Nú á áramótum 2023 og 2024 er kjörtímabilið nánast hálfnað. Okkur gengur heilt yfir nokkuð vel með okkar verkefni. Í því efnahagsástandi sem við öll glímum við er sífellt erfiðara að láta allt ganga upp.  Það eru því miður þessi óvæntu ófyrirséðu atriði sem setja mikið strik í reikinginn.  Í okkar tilfelli er það óvænta eins og hjá mjög mörgum öðrum mygla í skólahúsnæði. Þar koma óvænt útgjöld sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í áætlunum. Vitanlega hafa þess eðlis framkvæmdir forgang og hefta þar með getu okkar til fjárfestinga. Við sjálfstæðismenn á Seltjarnarnnesi munum leysa úr þessu verkefni eins og öðum sem við höfum glímt við undanfarin 74 ár í hreinum meirihluta.

Svona áföll geta því miður haft áhrif á framgang kosningaloforða en við reynum að sjálfsögðu að verja þau og standa við það sem við höfum lagt upp með.

Sum loforð er hægt að efna strax eins og að bæta og opna samskipti við íbúa. Það er bara miklu skemmtilegra að hafa þau opin, hreinskipt og eðlileg. Að minnsta kosti líður mér mjög vel með það.

Það besta við það loforð er að það kostar ekkert.

Hér á Nesinu erum við tilbúin með hönnun nýs leikskóla sem er stærsta verkefni kjörtímabilsins. Fram undan er útboð á því verkefni sem við áformum að taka í notkun í árslok 2025. Eins stefnum við á að endurbæta skólalóð Mýrarhúsaskóla svo eitthvað sé nefnt. Við munum setja aukna áherslu á að snyrta og fegra bæinn okkar og ætlum að vera dugleg í sumar í samstarfi við bæjarbúa.

Þann 9. apríl næstkomandi á Seltjarnarnesbær 50 ára kaupstaðarafmæli og því munum við fagna veglega með íbúum með afmælisdagskrá sem kynnt verður á næstunni.

Seltjarnarnesbær býður upp á lægsta útsvar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, ef ekki landinu öllu. Auk þess höfum við mætt stórfelldri hækkun fasteigngamats með lækkun á álagningarstuðli íbúum til heilla.

Við verðum ekki vör við annað en að íbúar séu mjög sáttir við það sem við erum að gera. Auðvitað er það svo að ekki er mögulegt að gera allt í einu. Að útskýra það er oft á tíðum snúið en við verðum að ráðstafa skattfé með skynsamlegum hætti. Það er hlutverk okkar kjörinna fulltrúa. Grunnþjónustan er og verður alltaf aðalmálið. Að reka hana með enn hagkvæmari hætti án skerðingar á þjónustu er það sem allt snýst um.

Við sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi hlökkum til komandi árs með bæjarbúum og þeirra verkefna sem bíða okkar.

Ég vil fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi óska öllum sjálfstæðismönnum til sjávar og sveita um land allt gleðilegra hátíða og þakka fyrir liðin ár.

Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri.