Reykjaneseldar og Reykjavíkurflugvöllur

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Eldgos við Sundhnúkagíga er fjórða gosið á Reykjanesskaga á aðeins 33 mánuðum.Eldgosið var mjög öflugt í byrjun og hraunrennsli margfalt meira en við upphaf jarðeldanna í Geldingadölum 2021, Meradölum 2022 og við Litla-Hrút sumarið 2023.Erfitt er að spá fyrir um framvinduna en vonandi mun hraunrennslið ekki ógna byggð í Grindavík eða mikilvægum innviðum nálægt eldstöðvunum. Hugur Íslendinga er hjá Grindvíkingum og mikilvægt að þjóðin standi saman sem einn maður við að leysa vanda þeirra.

Frekari eldsumbrot líkleg

Hafið er yfir vafa að nýtt gostímabil er hafið á Reykjanesskaga, sem gæti staðið öldum saman. Brýnt er að við Íslendingar drögum lærdóm af atburðarásinni og nýtum hann til að búa okkur sem best undir frekari eldsumbrot, sem virðast vera afar líkleg á næstu árum og áratugum. Framvindan sýnir okkur að ómögulegt er að segja fyrir um hvar og hvenær frekari eldsumbrot verða.Í yfirstandandi hrinu hefur þegar gosið í tveimur kerfum: Fagradalsfjalli og Eldvörpum-Svartsengi. Eldvirkni nær Reykjavík er vel hugsanleg, þ.e. í Krýsuvíkurkerfinu, Brennisteinsfjöllum (Bláfjöllum) og Hengli. Slíkt kallar á endurmat við allt skipulag og innviðauppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar. Á það ekki síst við um íbúabyggð, vegi og flugvelli.

Íslendingar treysta á flugsamgöngur

Fáar þjóðir treysta eins mikið á flugsamgöngur og Íslendingar. Óhjákvæmilegt er að horfast í augu við þann möguleika að Keflavíkurflugvöllur geti í framtíðinni lokast um lengri eða skemmri tíma vegna eldgoss. Þekkt er að eldsumbrot í nágrenni flugvalla geta haft mjög neikvæð áhrif á starfsemi þeirra. Til dæmis vegna gasmengunar, reykjarkófs og öskufalls. Kæmu slíkar aðstæður upp, væri afar slæmt ef Reykjavíkurflugvöllur væri horfinn á braut.Einnig hefur verið varað við þeim möguleika að hraun geti runnið yfir bæði Reykjanesbraut og Suðurstrandaveg og lokað þannig leiðum að Suðurnesjum sem og Keflavíkurflugvelli.Með tíðum eldsumbrotum á Reykjanesskaga eykst mikilvægi Reykjavíkurflugvallar. Þess vegna ber að tryggja starfsemi flugvallarins og sjá til þess að hann geti áfram gegnt margþættu hlutverki sínu í þágu innanlandsflugs, sjúkraflugs og björgunarflugs. Síðast en ekki síst ber að viðurkenna mikilvægi hans sem varaflugvallar Keflavíkurflugvallar.

Hvassahrauni haldið til streitu?

Borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar vinnur að því með ýmsum ráðum að þrengja að Reykjavíkurflugvelli svo unnt sé að leggja hann niður og flytja í Hvassahraun. Ótrúlegt er að nokkur maður láti sér detta í hug, að halda þeirri hugmynd til streitu, að flytja mikilvæga flugstarfsemi svo nálægt eldvirku svæði.Í nýsamþykktri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024, er sérstakur útgjaldaliður sem ber heitið ,,Flutningur Reykjavíkurflugvallar í Hvassahraun.“ Á þannig að verja tuttugu milljónum króna til flugvallarrannsókna í Hvassahrauni á komandi ári.Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til að fjárveitingin yrði felld niður og umræddum rannsóknum hætt hið snarasta. Enda er flestöllum orðið ljóst að hugmyndir um flugvöll í Hvassahrauni eru óraunhæfar vegna jarðhræringa og eldgosahættu. Þessi sjálfsagða sparnaðartillaga var felld við afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar í borgarstjórn, 5. desember sl., með öllum þrettán atkvæðum vinstri meirihlutans.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. desember 2023.