Ég var ekki að hlusta – það er komið eldgos!

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Ég var ekki al­veg að hlusta á þig því að ég var að fá smá tíðindi í eyr­un, það er víst byrjað eld­gos á Reykja­nesskaga,“ sagði Berg­steinn Sig­urðsson, þátta­stjórn­andi Silf­urs­ins í fyrra­kvöld, þegar við sát­um í beinni út­send­ingu í sett­inu á RÚV. Þátt­ur­inn hélt áfram á meðan frétta­stof­an gerði sig klára á sama tíma og viðbragðsaðilar, vís­inda­menn og aðrir sér­fræðing­ar ræstu sín­ar áætlan­ir.

Ég mun seint gleyma þessu augna­bliki. Þenn­an sama dag, nokkr­um klukku­stund­um áður en ég mætti í út­send­ingu, var ég í heim­sókn í Grinda­vík ásamt for­manni Sjálf­stæðis­flokks­ins þar sem við skoðuðum varn­argarðinn og stöðuna í bæn­um. Þar hef­ur fólk unnið sleitu­laust við að bæta tjón og verja svæðið síðustu vik­ur.

Í Silfr­inu var upp­haf­lega áætl­un­in að ræða verk­fallsaðgerðir flug­um­ferðar­stjóra – sem nú hafa frestað sín­um aðgerðum vegna eld­goss­ins. Það stóð líka til að ræða orku­mál, fjár­lög­in, PISA, sam­ein­ing­ar há­skóla, vís­indi, Mennta­sjóð náms­manna og stjórn­ar­sam­starfið. Það var af mörgu að taka eft­ir að þing­störf­um lauk um síðustu helgi.

Allt eru þetta mik­il­væg mál en verða fljótt smá­vægi­leg í sam­an­b­urði við stöðuna í Grinda­vík. Síðustu daga og vik­ur höf­um við skynjað sterkt sam­taka­mátt þjóðar­inn­ar. Hug­ur okk­ar allra hef­ur verið hjá Grind­vík­ing­um. Það er mikið áfall að þurfa að yf­ir­gefa heim­ili sitt og verðmæti og lífsviður­væri get­ur horfið á svip­stundu. Jarðhrær­ing­ar og nú eld­gos minn­ir okk­ur á að kraft­ur­inn í ís­lenskri nátt­úru get­ur verið ógn­væn­leg­ur og af­leiðing­ar al­var­legr­ar.

Við eig­um magnaða viðbragðsaðila, vís­inda­menn og aðra sér­fræðinga sem hafa staðið vakt­ina all­an sól­ar­hring­inn síðustu vik­ur, og í raun árin. At­b­urðir síðustu ára hafa sýnt okk­ur hversu vel al­manna­varna­kerfi lands­ins er í stakk búið til að tak­ast á við fjöl­breytt­ar áskor­an­ir í landi þar sem kraft­ur­inn er mik­ill í veðri og nátt­úru. Líka mik­il­vægi öfl­ugs vís­inda­starfs og rann­sókna.

Nátt­úr­an er óút­reikn­an­leg og það var ekki lang­ur viðbragðstím­inn þegar gosið hófst. Það skipt­ir máli þegar við horf­umst í augu við slíka nátt­úru­vá að all­ar ákv­arðanir séu vel ígrundaðar. Það var mik­il gæfa að eng­inn var í bæn­um þetta af­drifa­ríka kvöld og búið var að bjarga helstu verðmæt­um. Nú mun reyna á varn­argarðana sem rík­is­stjórn­in tók ákvörðun um að reisa og geta skipt sköp­um við að vernda mik­il­væga innviði.

Von­ir og vænt­ing­ar Grind­vík­inga um að halda jól­in heima eru nú orðnar að engu en það má þakka fyr­ir að byggð í Grinda­vík er enn ekki í hættu. Von­andi mun það ekki breyt­ast. Við stönd­um öll með Grind­vík­ing­um á þess­um tím­um, það er erfitt að setja sig í spor þeirra sem hafa verið fjarri heim­ili sínu í lengri tíma og ástandið í mik­illi óvissu, sér­stak­lega þegar jól­in nálg­ast. Ég sendi hlýj­ar jóla­kveðjur til ykk­ar allra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. desember 2023.