„Nú reynir á að varnargarðarnir haldi“

Vel hefur gengið að koma upp varnargörðum í nágrenni virkjunarinnar í Svartsengi sem sér Suðurnesjabúum fyrir heitu vatni og rafmagni. Vinna hófst 14. nóvember eftir að Alþingi samþykkti tillögu Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra um að fela ríkislögreglustjóra að ráðast í framkvæmdina. Sú tillaga var djörf og umdeild en hefur nú sannað mikilvægi sitt þegar gos er hafið. Unnið hefur verið dag og nótt síðan að því að koma varnargörðunum upp sem ætlað er að verja innviðina í Svartsengi gegn mögulegu hraunflæði. Þeirri vinnu er að mestu lokið.

Nú þegar eldgos er hafið að nýju á Reykjanesskaga eru bundnar miklar vonir við að varnargarðarnir haldi fari svo að hraun flæði í átt að orkuverinu.

„Ég er afskaplega fegin hversu vel hefur gengið að koma upp varnargörðum í kringum Svartsengi og hef margoft sagt að í viðleitni okkar mannanna við að hafa stjórn á óblíðum náttúruöflum er bygging varnargarðanna okkar minnsta tilraun til að lágmarka það tjón sem hugsanlega gæti orðið. Nú reynir á að varnargarðarnir haldi og tryggi íbúum Suðurnesja rafmagn, heitt og kalt vatn nú þegar kaldasti árstíminn er genginn í garð,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra á facebook-síðu sinni í gærkvöldi eftir að gosið hófst.

„Við munum snúa aftur heim“

Vilhjálmur Árnason ritari Sjálfstæðisflokksins og alþingismaður er íbúi í Grindavík.  Hann tjáði sig á facebook um nýjustu vendinngar: „Þessi staðsetning [gossins] er töluvert frá mikilvægum innviðum og gefur okkur því góðan tíma – að öllu óbreyttu – til að koma frekari vörnum við þar sem þess þarf, til viðbótar við þá varnargarða, sem menn hafa lagt nótt við nýtan dag, við að reisa að undanförnu.“

Hann sagði að Grindvíkingar verði að vona það besta og búa sig undir það versta.

„Við Grindvíkingar höfum lært mikið af jarðhræringum síðustu 46 mánuðina. Við höfum nýtt tímann vel til undirbúnings mótvægisaðgerða. Og þess vegna hef ég fulla trú á því að við munum snúa aftur heim í okkar öfluga samfélag,“ sagði Vilhjálmur.