Þingmenn Samfylkingarinnar eru komnir í hár saman í umræðunni um orkuöryggi þjóðarinnar.
Þannig sagði Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður flokksins í viðtali við Morgunblaðið nýlega: „Ég held að allir sjái að kyrrstaðan í orkuöflun bitnar ekki bara á orkuöryggi víða um land, heldur grefur einnig undan hagvexti og tækifærum til atvinnuuppbyggingar í landinu.“
Sagði Jóhann Páll að það myndi ekki standa á Samfylkingunni að styðja skynsamlegar lagabreytingar til að liðka fyrir orkuöflun.
Þórunn Sveinbjarnardóttir annar þingmaður flokksins í dag í viðtali við Morgunblaðið að þessi orð Jóhanns Páls væru „frjálsleg túlkun á stefnu Samfylkingarinnar.“
Sagði hún Jóhann Pál tala fyrir sínum skoðunum en að hún sjálf talaði fyrir stefnu Samfylkingarinnar. Í viðtali við ruv.is í sumar sagði Þórunn: „Þessi stanslausa orðræða um orkuskort er ekkert annað en ódýr áróður.“
Jóhann Páll sagði í áðurnefndu viðtali: „Vonandi fer eitthvað að hreyfast þar og Samfylkingin mun styðja það að einfalda leyfisveitingarferlið og að mál verði unnin innan viðunandi tímafrests. Ef við lítum til Hvammsvirkjunar þá var hún sett í nýtingarflokk 2015 og Samfylkingin studdi það.“
Sagði hann að Samfylkingin myndi styðja fyrirliggjandi frumvarp á Alþingi um raforkuöryggi. „Staðan er sú að ef löggjafinn grípur ekki inn í er hætt við því að heimili og smærri fyrirtæki beri skaðann af því gríðarlega ójafnvægi sem er að myndast á orkumarkaði vegna umframeftirspurnar,“ sagði hann.
Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði hinsvegar í dag að ekki væri þörf á neinni löggjöf til að flýta framkvæmdum. Í viðtali við ruv.is í sumar sagði hún einnig að orkuskortur væri ekki hinn raunverulegi vandi þegar kæmi að orkuskiptum hérlendis heldur væri það mjög mikil eftirspurn eftir grænni orku.
Ljóst er að í þessu sem öðru er lítið að hafa frá Samfylkingunni og hrópandi að Kristrún Frostadóttir formaður flokksins skuli ekki stíga fram og höggva á þennan hnút í þingflokki hennar. Hver er raunveruleg stefna Samfylkingarinnar í orkumálum?