Stefnulaus Samfylking í orkumálum

Þingmenn Samfylkingarinnar eru komnir í hár saman í umræðunni um orkuöryggi þjóðarinnar.

Þannig sagði Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður flokksins í viðtali við Morgunblaðið nýlega: „Ég held að all­ir sjái að kyrrstaðan í orku­öfl­un bitn­ar ekki bara á orku­ör­yggi víða um land, held­ur gref­ur einnig und­an hag­vexti og tæki­fær­um til at­vinnu­upp­bygg­ing­ar í land­inu.“

Sagði Jóhann Páll að það myndi ekki standa á Samfylkingunni að styðja skynsamlegar lagabreytingar til að liðka fyrir orkuöflun.

Þórunn Sveinbjarnardóttir annar þingmaður flokksins í dag í viðtali við Morgunblaðið að þessi orð Jóhanns Páls væru „frjáls­leg túlk­un á stefnu Samfylkingarinnar.“

Sagði hún Jóhann Pál tala fyrir sínum skoðunum en að hún sjálf talaði fyrir stefnu Samfylkingarinnar. Í viðtali við ruv.is í sumar sagði Þórunn: „Þessi stanslausa orðræða um orkuskort er ekkert annað en ódýr áróður.“

Jóhann Páll sagði í áðurnefndu viðtali: „Von­andi fer eitt­hvað að hreyf­ast þar og Sam­fylk­ing­in mun styðja það að ein­falda leyf­is­veit­ing­ar­ferlið og að mál verði unn­in inn­an viðun­andi tíma­frests. Ef við lít­um til Hvamms­virkj­un­ar þá var hún sett í nýt­ing­ar­flokk 2015 og Sam­fylk­ing­in studdi það.“

Sagði hann að Samfylkingin myndi styðja fyrirliggjandi frumvarp á Alþingi um raforkuöryggi. „Staðan er sú að ef lög­gjaf­inn gríp­ur ekki inn í er hætt við því að heim­ili og smærri fyr­ir­tæki beri skaðann af því gríðarlega ójafn­vægi sem er að mynd­ast á orku­markaði vegna um­fram­eft­ir­spurn­ar,“ sagði hann.

Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði hinsvegar í dag að ekki væri þörf á neinni löggjöf til að flýta framkvæmdum. Í viðtali við ruv.is í sumar sagði hún einnig að orkuskortur væri ekki hinn raunverulegi vandi þegar kæmi að orkuskiptum hérlendis heldur væri það mjög mikil eftirspurn eftir grænni orku.

Ljóst er að í þessu sem öðru er lítið að hafa frá Samfylkingunni og hrópandi að Kristrún Frostadóttir formaður flokksins skuli ekki stíga fram og höggva á þennan hnút í þingflokki hennar. Hver er raunveruleg stefna Samfylkingarinnar í orkumálum?