Dýrkeyptir brestir

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Ég ætla að taka mér það leyfi að setja fram fimm full­yrðing­ar og halda því fram að þær séu al­menn og aug­ljós sann­indi:

•Ekk­ert sam­fé­lag sæk­ir fram til bættra lífs­kjara án góðs, kraft­mik­ils og fjöl­breytts mennta­kerf­is.

•Sam­keppn­is­hæfni þjóðar og mennt­un eru tví­bura­syst­ur.

•Horn­steinn að mennt­un er lagður í leik- og grunn­skól­um.

•Mennta­kerfið er mik­il­virk­asta tækið til að auka jöfnuð og tryggja jöfn tæki­færi.

•Í gildi er sátt­máli þjóðar um að tryggja öll­um góða grunn­mennt­un óháð efna­hag, bú­setu og upp­runa.

Með þessi sann­indi í huga hljóta niður­stöður PISA 2022, alþjóðlegs könn­un­ar­prófs, að valda öll­um veru­leg­um áhyggj­um. Prófið er á veg­um Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar [OECD] og mæl­ir lesskiln­ing fimmtán ára nem­enda og læsi þeirra á stærðfræði og nátt­úru­vís­indi. Alþjóðleg­ur sam­an­b­urður á gæðum mennt­un­ar og stöðu nem­enda er vissu­lega vanda­sam­ur en PISA gef­ur a.m.k. góða vís­bend­ingu um stöðu grunn­skól­ans á Íslandi í sam­an­b­urði við önn­ur lönd og þróun síðustu ár.

Niður­stöðurn­ar eru slá­andi svo ekki sé sterk­ar til orða tekið. Um 40% fimmtán ára nem­enda búa ekki yfir grunn­hæfni í lesskiln­ingi – einn af hverj­um fjór­um! Ann­ar hver drengja hef­ur ekki öðlast færni sem nauðsyn­leg er til að geta lesið sér til gagns og fróðleiks. Að óbreyttu eru mögu­leik­ar þess­ara drengja til að taka full­an þátt í sam­fé­lag­inu, hasla sér völl í at­vinnu­líf­inu og/​eða afla sér frek­ari mennt­un­ar stór­kost­lega skert­ir.

Aft­ur­för í mörg ár

Allt frá 2009 hef­ur þró­un­in hér á landi ein­kennst af aft­ur­för. Í PISA 2009 var frammistaða ís­lenskra nem­enda um eða yfir meðaltali OECD-landa og svipuð og á Norður­lönd­un­um, að Finn­landi und­an­skildu sem stend­ur flest­um lönd­um fram­ar. Árið 2012 stóðu ís­lensk­ir nem­end­ur verr að vígi á öll­um mats­sviðum. Og það hef­ur haldið áfram að síga á ógæfu­hliðina.

Í öll­um grein­um, lesskiln­ingi, stærðfræði og nátt­úru­vís­ind­um, hef­ur hlut­fall þeirra nem­enda sem ekki búa yfir grunn­hæfni hækkað. Frá 2012 hef­ur hlut­fallið nær tvö­fald­ast þegar kem­ur að lesskiln­ingi. Eins og sést á meðfylgj­andi mynd hef­ur nei­kvæð þró­un­in verið lít­il­lega skárri í stærðfræði og nátt­úru­vís­ind­um. Það vek­ur einnig at­hygli að aðeins 3% nem­enda eru tal­in hafa af­burðahæfni í lesskiln­ingi, 2% í læsi á nátt­úru­vís­indi og 5% í stærðfræði. Þetta hlut­fall hef­ur farið lækk­andi á síðustu árum.

Í sam­an­b­urði við önn­ur lönd er staða grunn­skól­ans á Íslandi grafal­var­leg. Við erum í sjötta neðsta sæti OECD-ríkja. Aðeins Grikk­land, Síle, Mexí­kó, Kosta Ríka og Kól­umbía eru með lak­ari ár­ang­ur. Okk­ur eru mislagðar hend­ur við að tryggja góða grunn­mennt­un barn­anna okk­ar. Og þrátt fyr­ir að grunn­skól­inn sé sá dýr­asti á Vest­ur­lönd­um standa ís­lensk­ir nem­end­ur jafn­öldr­um sín­um að baki í und­ir­stöðugrein­um. Við höf­um hunsað viðvör­un­ar­bjöll­urn­ar í mörg ár.

Kerfið virk­ar ekki

Vissu­lega er PISA ekki eini mæli­kv­arðinn á gæði skóla­starfs. Ánægja og vellíðan, sköp­un og fé­lags­færni eru mik­il­væg­ir þætt­ir í starfi hvers skóla. Í þessu virðast ís­lensk­ir skól­ar standa vel. En brota­lam­irn­ar í grunn­mennt­un­inni eru svo al­var­leg­ar að ekk­ert sam­fé­lag get­ur sætt sig við þær. Mennt­un er spurn­ing um framtíð barn­anna. Lé­leg mennt­un ræn­ir þau tæki­fær­um í líf­inu og sem þjóð stönd­um við ekki við sátt­mál­ann um að tryggja öll­um góða grunn­mennt­un.

Yf­ir­völd mennta­mála, kenn­ar­ar, for­eldr­ar – við öll – verðum að horf­ast í augu við það að kerfið virk­ar ekki. Skipu­lag skóla held­ur gæðum mennt­un­ar niðri, er lam­andi fyr­ir dug­mikla kenn­ara. Árang­ur (eða ár­ang­urs­leysi) skóla er sveipaður leynd­ar­hjúp sem hvorki kenn­ar­ar né for­eldr­ar hafa náð að brjóta. Þing­mönn­um er meinað að fá upp­lýs­ing­ar, líkt og ég komst að þegar ég lagði fram skrif­lega fyr­ir­spurn á síðasta þing­vetri um niður­stöður PISA-kann­ana árin 2009 til 2018 eft­ir skól­um. Fyr­ir­slátt­ur­inn var að niður­stöður fyr­ir ein­staka skóla geti gefið óná­kvæma mynd af hæfni og getu nem­enda og þróun þeirra yfir tíma. Ekki einu sinni skóla­stjórn­end­ur fá niður­stöðurn­ar. Leynd­ar­hyggj­an er ekki traust­vekj­andi. Skóla­stjórn­end­um, kenn­ur­um og for­eldr­um er gert ókleift að nýta sér mik­il­væg­ar upp­lýs­ing­ar.

Hæfi­leik­arn­ir allt um kring

•Í upp­hafi setti ég fram fimm full­yrðing­ar. Ég ætla að bæta tveim­ur við.

•Íslensk­ir nem­end­ur eru síst lak­ari en jafn­aldr­ar þeirra í öðrum lönd­um.

Fjöldi hæfi­leika­ríkra kenn­ara og skóla­stjórn­enda vinn­ur inn­an veggja grunn­skól­ans en kerfið vinn­ur gegn þeim – þeir fá ekki að njóta sín.

Jón Pét­ur Zimsen aðstoðarskóla­stjóri Rétt­ar­holts­skóla full­yrti í sam­tali við mbl.is að búið sé að gera um­hverfi kenn­ara erfitt. Það sé „svo­lítið verið að út­hýsa kenn­ur­um“. Hann held­ur því fram að nám­skrá grunn­skól­anna sé ekki með neinu inni­haldi. Kenn­ar­ar viti ekki ná­kvæm­lega hvað þeir eigi að kenna: „Það er fullt af flottu fólki í kennslu en nám­skrá­in til­tek­ur ekk­ert sér­stakt sem á að kenna. Þetta er allt opið. Öll þekk­ing­ar­atriði eru tek­in út og þetta er ávís­un á hrun, eins og þessi niðurstaða í PISA-könn­un­inni lýs­ir, sem mun halda áfram.“

Það er von hverr­ar kyn­slóðar að lífs­kjör þeirra sem á eft­ir koma verði betri og tæki­fær­in fjöl­breytt­ari. Hið sama á við um mennt­un. Ég hef áður varað við því að sú hætta virðist raun­veru­leg að kyn­slóðin sem nú vex úr grasi fái ekki notið betri mennt­un­ar en við sem eldri erum. Þvert á móti. Gæðum mennt­un­ar hrak­ar á milli kyn­slóða.

Al­var­leg­ir brest­ir í grunn­skól­an­um blasa við öll­um. Okk­ur ber skylda til að bregðast við og brjóta upp kerfið. Fáir ef nokkr­ir eru bet­ur til þess falln­ir að leiða þá vinnu en Jón Pét­ur Zimsen og fjöldi hæfi­leika­ríkra kenn­ara með skýra sýn á skipu­lag skóla­starfs­ins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. desember 2023.