Sminkaða daman í menntakerfinu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Það er til svart og app­el­sínu­gult fiðrildi sem á ensku heit­ir Europe­an Pain­ted Lady sem hægt er að þýða sem evr­ópska sminkaða dam­an. Fiðrildið forðast vet­ur­inn í Skandi­nav­íu og flýg­ur fimmtán þúsund kíló­metra til að kom­ast í hit­ann í Mið-Afr­íku. Á leiðinni á áfangastað flýg­ur það meðal ann­ars yfir tvö þúsund metra háa Alp­ana og þrjú þúsund kíló­metr­um seinna yfir Sa­hara-eyðimörk­ina þar sem hit­inn get­ur farið upp í 50 gráður. Þetta ger­ir fiðrildið tvisvar á ári.

Það sem er svo magnað við þetta ferðalag er að í reynd get­ur fiðrildið ekki flogið nema um nokk­ur þúsund kíló­metra. Hvernig fer evr­ópska sminkaða dam­an þá að því að fljúga til Mið-Afr­íku og til baka? Svarið er ein­falt en um leið magnað.

Ferðalagið henn­ar er sam­spil nokk­urra kyn­slóða því að litla dam­an læt­ur lífið á leiðinni en fjölg­ar sér um leið. Af­kom­end­ur henn­ar halda því ferðalag­inu áfram og það eru í reynd barna­barna­barna­börn­in henn­ar sem snúa til baka til Skandi­nav­íu. Hvert fiðrildi gegn­ir mik­il­vægu hlut­verki í þessu ferðalagi. Það er eitt­hvað í genam­inn­inu sem leiðir til þess að pínu­litlu fiðrilda­börn­in vita ná­kvæm­lega hvert ferðinni er heitið bæði að hausti og vori.

Ég hef trú á því að ís­lenskt mennta­kerfi geti orðið eins og evr­ópska sminkaða dam­an. Það er að segja, sett sér mark­mið um miklu meiri gæði og mun meiri ár­ang­ur. Og ég trúi því að við sem sam­fé­lag get­um, eins og fiðrildið, kom­ist þangað þó það sé ekki gert í einni lotu.

Við stönd­um frammi fyr­ir al­var­legri stöðu. Árang­ur ís­lenskra nem­enda í alþjóðlegri sam­an­b­urðarmæl­ingu PISA mæl­ist und­ir meðallagi OECD-ríkja og Norður­landa í öll­um þátt­um og fer hrak­andi. Af mörgu er að taka og þessi staða er sam­spil margra þátta yfir lang­an tíma. Og þessu breyt­um við ekki með skyndi­lausn­um og ein­staka lestr­ar- eða stær­fræðiátaki.

Veru­leik­inn er sá að við verðum að viður­kenna að lang­tíma­ár­ang­ur í mennt­un lík­ist meira ferðalagi evr­ópsku sminkuðu döm­unn­ar. Það ger­ist í áföng­um. Rétt eins og í til­viki fiðrild­anna þarf hvert okk­ar að gera sitt til þess að við náum þeim ár­angri sem við vilj­um.

Það sem öllu máli skipt­ir er að ferðalag­inu verði haldið áfram. Við sem sam­fé­lag ber­um öll ábyrgð á að bæta úr stöðunni og við meg­um eng­an tíma missa. Stjórn­völd, sveit­ar­stjórn­ir, mennta­kerfið, for­eldr­ar, at­vinnu­líf og sam­fé­lagið allt þarf að vera með það í genam­inn­inu að eina leiðin til að auka lífs­gæði og fjölga tæki­fær­um er að við leggj­um áherslu á auk­in gæði mennt­un­ar. Séum ófeim­in við að tak­ast á við þau vanda­mál sem við okk­ur blasa og við erum meðvituð um. Við þurf­um eins og evr­ópska sminkaða dam­an að leggja af stað í lang­ferð svo kom­andi kyn­slóðir nái á áfangastað.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. desember 2023.