Frumvarp sem heimilar innlendar vefverslanir með áfengi í smásölu verður lagt fram að nýju eftir áramót. Þetta upplýsti Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í svari við fyrirspurn á Alþingi nýlega.
Í svari ráðherra kemur m.a. fram að áfengislöggjöfin frá 1998 byggi á mun eldri áfengislögum frá 1969 sem hafi tekið litlum breytingum í gegnum tíðina.
„Það hefur því mátt færa rök fyrir því að lögin hafi ekki þróast í takt við þá samfélagslegu þróun sem orðið hefur á undanförnum árum. Á það einnig við um breytt mynstur verslunar, þá sérstaklega hvað varðar netverslun, innlenda sem erlenda. Þá hefur orðið mikil gróska í innlendri framleiðslu sem vart þekktist við gildistöku laganna. Á undanförnum árum hafa því komið upp ýmis álitaefni sem hafa bent til þess að mikilvægt sé að ráðast í heildarendurskoðun á áfengislögum til að þau endurspegli breytta þróun á sviði verslunar og framleiðslu áfengis hér á landi,“ segir m.a. í svarinu.