Álfar sem bjarga mönnum

Diljá Mist Einarsdóttir formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Fíkni­sjúk­dóm­ar eru lífs­hættu­leg­ir og ljóst er að bið eft­ir heil­brigðisþjón­ustu get­ur verið dauðadóm­ur. Meðan sjúk­ling­arn­ir bíða eft­ir að fá viðeig­andi þjón­ustu er gíf­ur­legt álag á aðstand­end­um þeirra og fjöl­skyld­um með til­heyr­andi af­leiðing­um og kostnaði fyr­ir sam­fé­lagið.

Við þing­menn höf­um ekki farið var­hluta af há­værri umræðu og ákalli vegna bágr­ar stöðu fólks með vímu­efna­vanda. Heil­brigðisráðherra hef­ur talað fyr­ir því að við tök­um á vímu­efna­vand­an­um inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins og tekið fjöl­mörg já­kvæð skref hvað viðkem­ur skaðam­innk­andi úrræðum. Við þurf­um samt að gera miklu, miklu bet­ur. Ég mælti í því skyni ný­lega fyr­ir til­lögu til þings­álykt­un­ar um viðhlít­andi þjón­ustu vegna vímu­efna­vanda, en stuðning­ur við til­lög­una er þver­póli­tísk­ur.

Staðan er því miður þannig að fólk með vímu­efna­vanda, fólk með lífs­hættu­leg­an sjúk­dóm, læt­ur í dag lífið á biðlist­um eft­ir nauðsyn­legri heil­brigðisþjón­ustu. Þetta er oft á tíðum ungt fólk sem fær hrein­lega ekki sama stuðning og þjón­ustu í fé­lags- og heil­brigðis­kerf­inu og annað lang­veikt fólk.

Á næstu dög­um mun kunn­ug­leg sjón mæta okk­ur á fjöl­förn­um stöðum um allt land. Sjálf­boðaliðar á veg­um SÁÁ – Sam­taka áhuga­fólks um áfeng­is- og vímu­efna­vand­ann munu dreifa sér og selja SÁÁ-álf­inn góða. Sal­an er mik­il­væg­ur þátt­ur í fjár­öfl­un SÁÁ og mun hún fara fram út 3. des­em­ber. Sam­tök­in gegna lyk­il­hlut­verki í bar­átt­unni við fíkni­sjúk­dóma og við eig­um flest ef ekki öll tengsl við þeirra góða starf. Starf­semi sam­tak­anna er að miklu leyti fjár­mögnuð með frjáls­um fram­lög­um og sjálf­boðastarfi. Ég hvet því alla sem hafa ein­hvern tím­ann hugsað hlý­lega til þjón­ustu SÁÁ til að kaupa álf­inn – jafn­vel tvo!

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. desember 2023.