Látum af gullhúðun

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

EES-gerðir virðast allt of oft innleiddar í íslenska löggjöf með meira íþyngjandi hætti en EES-samstarfið kveður á um; ganga lengra en regluverk Evrópusambandsins. Slík vinnubrögð hafa verið nefnd gullhúðun eða blýhúðun og fara jafnvel í bága við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Þannig göngum við lengra en Evrópusambandið þegar kemur að ýmsum kröfum og þegar regluverk okkar reynist meira íþyngjandi en nýjar reglur Evrópusambandsins er ekki talin ástæða til að endurskoða íslenskt regluverk.

Ég hef nú, ásamt nokkrum öðrum sjálfstæðismönnum, lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um ársreikninga í því skyni að vinda ofan af slíkri gullhúðun og samræma íslenskt regluverk regluverki annarra landa á innri markaði Evrópusambandsins. Þegar ársreikningatilskipun Evrópusambandsins var innleidd á sínum tíma var ákveðið að hér skyldi gengið lengra en skylt var samkvæmt tilskipuninni. Þannig voru stærðarmörk íslenskra félaga skilgreind með öðrum hætti en í Evrópusambandinu. Þar sem ýmsar kvaðir og kostnaður geta fylgt stærð félaga er ljóst að með þessu hafa félög af sömu stærð ekki sama samkeppnisgrundvöll innan EES-svæðisins. Með því er dregið úr samkeppnisstöðu íslenskra félaga. Við teljum það ótækt að íþyngjandi kvaðir séu lagðar á íslensk félög umfram það sem viðgengst á samanburðarmörkuðum Evrópusambandsins.

Viðskiptaráð hefur verið ötult við að benda á íþyngjandi innleiðingu á regluverki Evrópusambandsins. Á næstu dögum mun umhverfisráðherra skila Alþingi skýrslu að beiðni minni um innleiðingu EES-gerða sem varða málaflokk hans. Ég hvet fólk, fyrirtæki og samtök til að senda mér frekari ábendingar um gullhúðun – um íþyngjandi innleiðingu EES-gerða. Þetta frumvarp er fyrsta, en ekki síðasta tilraun okkar sjálfstæðismanna til að vinda ofan af gullhúðun; til að létta álögum af íslenskum fyrirtækjum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. nóvember 2023