Sjónhverfingar umfram hagræðingu

Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Sam­kvæmt nýbirtri út­komu­spá Reykja­vík­ur­borg­ar er gert ráð fyr­ir 4,8 millj­arða halla af rekstri borg­ar­sjóðs árið 2023. Sam­hliða muni sam­stæða Reykja­vík­ur­borg­ar skila 4,4 millj­arða rekstr­ar­halla, sem er 12,5 millj­arða nei­kvæð sveifla frá áætl­un. Þetta kalla borg­ar­stjóri og skó­sveinn hans, odd­viti Fram­sókn­ar, ánægju­leg tíðindi.

Dig­ur­barka­leg­ar yf­ir­lýs­ing­ar

Fyr­ir tæpu ári birt­ust nokkuð dig­ur­barka­leg­ar yf­ir­lýs­ing­ar meiri­hlut­ans, um að fram und­an væru ein­hverj­ar mestu hagræðing­araðgerðir frá hruni. Þegar bet­ur var að gáð reynd­ust áformin bæði létt­væg og mátt­laus. Ekki til þess fall­in að hreyfa nál­ina í rekstri borg­ar­inn­ar.

Nú, að ári liðnu, sést glöggt að út­gjöld borg­ar­inn­ar hafa ekki dreg­ist sam­an svo nokkru nem­ur – þvert á móti blásið út langt um­fram verðlagsþróun og kjara­samn­ings­bundn­ar launa­hækk­an­ir. Sam­hliða hef­ur starfs­fólki ekki fækkað á neinu sviði, þrátt fyr­ir boðaða fækk­un stöðugilda.

Eina ástæða þess að rekstr­ar­hall­inn fer úr rúm­um 15 millj­örðum í tæpa fimm er gríðarleg­ur tekju­vöxt­ur borg­ar­inn­ar. Í ár hafa skatt­tekj­ur, jöfn­un­ar­sjóðstekj­ur og arðgreiðslur til borg­ar­inn­ar vaxið um tæp­lega 21 millj­arð milli ára. Sam­hliða hef­ur launa­kostnaður og rekstr­ar­kostnaður þyngst sem nem­ur 11 millj­örðum. Marg­um­talaður 10 millj­arða viðsnún­ing­ur í rekstri borg­ar­inn­ar skýrist því ekki af hagræðingu – hann er sótt­ur beint í vasa skatt­greiðenda.

Stór hluti auk­inna skatt­tekna er fólg­inn í hækk­un fast­eigna­gjalda þessa árs, í kjöl­far 20% hækk­ana fast­eigna­mats. Lang­flest stærstu sveit­ar­fé­lög lands­ins brugðust við hækk­un mats­ins með lækk­un álagn­ing­ar­hlut­falla. Reykja­vík sá ekki ástæðu til þess, þrátt fyr­ir ít­rekaðar til­lög­ur okk­ar sjálf­stæðismanna. Sjái Sam­fylk­ing tekjutu­sku þá vind­ur hún hana.

Treysta á sölu Perlunn­ar

Full­trú­ar meiri­hlut­ans gleðjast þessi dægrin yfir vænt­um viðsnún­ingi næsta árs, en þá er áætlað að borg­ar­sjóður skili loks já­kvæðri rekstr­arniður­stöðu. Þau láta hins veg­ar hjá líða að nefna að viðsnún­ing­ur­inn bygg­ist á þeirri lyk­il­for­sendu að Perl­an í Öskju­hlíð verði seld fyr­ir minnst 3,5 millj­arða. Tak­ist það ekki verður rekstr­ar­hall­inn að lík­ind­um þrír millj­arðar.

Sam­hliða reiða þau sig á tug­millj­arða arðgreiðslur frá Orku­veitu næstu árin. Ef arðgreiðsln­anna nyti ekki við myndi rekst­ur borg­ar­inn­ar verða ósjálf­bær næstu fjög­ur árin hið minnsta.

Áfram­hald­andi skulda­söfn­un

Árið 2022 juk­ust skuld­ir sam­stæðu borg­ar­inn­ar um 44 millj­arða og er áformað að ný lán­taka nemi 219 millj­örðum næstu fimm árin. Skuld­ir borg­ar­sjóðs juk­ust um 25 millj­arða og munu halda áfram að aukast. Áætlað er að árið 2028 muni af­borg­an­ir lang­tíma­lána og leigu­skulda nema 14,6 millj­örðum ár­lega, sem er um tvö­fald­ur hall­inn af mála­flokki fatlaðs fólks í Reykja­vík!

Það er ljóst að bregðast þarf við lát­lausri skulda­söfn­un borg­ar­inn­ar og huga fljótt að skipu­legri niður­greiðslu skulda.

Áþreif­an­leg­ar aðgerðir sem hreyfa nál­ina

Það mun taka nokk­ur ár og heil­mikið átak að vinda ofan af ára­langri óstjórn í rekstri borg­ar­inn­ar. Á næstu vik­um munu borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks kynna til­lög­ur sem eru raun­veru­lega til þess falln­ar að hreyfa nál­ina í rekstri borg­ar­inn­ar. Til­lög­urn­ar munu miða að um­fangs­mik­illi hagræðingu í rekstri og minnk­un yf­ir­bygg­ing­ar. Þær munu snúa að ein­föld­un stjórn­kerf­is og aukn­um rekstr­ar­út­boðum. Þær munu jafn­framt snúa að eigna­sölu og þeirri áherslu að borg­in standi ekki í sam­keppn­is­rekstri.

Það þarf breytt­ar áhersl­ur og raun­hæf­ar aðgerðir til að koma bönd­um á rekst­ur borg­ar­inn­ar. Mik­il­væg­asta aðgerðin er þó senni­lega sú að skipta um meiri­hluta í Reykja­vík.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember 2023.