Tvöfaldar framlög til mannúðaraðstoðar á Gaza

„Fulltrúi Íslands á allsherjarþingi SÞ tilkynnti í gær um tvöföldun framlaga okkar til mannúðaraðstoðar á Gaza. Samhliða var ítrekað skýrt ákall okkar, líkt og undanfarna daga, um tafarlaust mannúðarhlé, óheft aðgengi neyðarbirgða og að alþjóðalög séu undantekningalaust virt. Fulltrúi Íslands ítrekaði sömuleiðis kröfu okkar um tafarlausa lausn um 240 gísla Hamas, en í hópi þeirra eru yfir 30 börn,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra í nýlegri færslu sinni á facebook.

„Mannúðarhlé er forsenda þess að hjálparstofnanir og aðrir viðbragðsaðilar geti veitt almennum borgurum á Gaza lífsbjargandi aðstoð og dreift nauðþurftum. Þess vegna hefur Ísland kallað skýrt eftir tafarlausu hléi undanfarna daga, jafnt á opinberum vettvangi, sem og í samtölum við fulltrúa ísraelskra stjórnvalda og á allsherjarþinginu,“ segir Bjarni.

„Framlagið sem tilkynnt var í gær er liður í að styðja við starf stofnana Sameinuðu þjóðanna á Gaza til að standa vörð um mannlega reisn og draga úr þjáningum almennra borgara.“

70 milljónir króna verða lagðar til sem viðbótarframlag til Palestínuflóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem þýðir heildarframlag upp á 140 milljónir frá því að átökin brutust út.

Ræðu fulltrúa Íslands á þinginu má finna hér.