Bryndís Haraldsdóttir forseti Norðurlandsráðs

Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður Sjálfstæðisflokksins var í gær kjörin forseti Norðurlandsráðs fyrir árið 2024. Þingi Norðurlandaráðs lauk í gær með því að Ísland tók við formennsku í ráðinu.

Á sama tíma var formennskuáætlun Íslands fyrir Norðurlandaráð kynnt undir yfirskriftinni Friður og öryggi á norðurslóðum. Þar er talað um þörfina á að tryggja öryggi Norðurlanda og bandalagsþjóða þeirra á norðurslóðum og jafnframt að draga úr spennu á svæðinu og áherslu á friðsamlegar lausnir. Þörf sé á nýrri framtíðarsýn í öryggismálum. Einnig er vísað í þætti sem tengjast velferð og framtíð Norðurlanda og íbúa á norðurslóðum.

Bryndís er fædd í Reykjavík 29. desember 1976. Hún hefur setið á Alþingi síðan 2016. Bryndís var 6. varaforseti Alþingis 2017-2021. Þá er hún formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis síðan 2021, sat í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis 2017, utanríkismálanefnd 2017-2021, efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis 2017-2021, fjárlaganefnd 2021-2023 og í velferðarnefnd Alþingis frá 2023.

Hún sat í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 2017-2021, þar af formaður 2017, í Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu 2017-2023, þar af formaður 2021-2023, í þingmannadeild Íslands og Evrópusambandsins af hálfu Alþingis 2017 og verið formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs frá 2021.

Næsta Norðurlandaráðsþing verður haldið að ári í Reykjavík.