„Þannig vegnar okkur öllum best“

„Skattaglaðir vinstri­menn fara yf­ir­leitt á taug­um þegar minnst er á skatta­lækk­an­ir,“ segir Óli Björn Kárason alþingismaður í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að kaldur hrollur fari um þá alla þegar þeir átti sig á því að nokkur árangur hafi náðist á síðustu árum við að létta skattbyrðar einstaklinga og fyrirtækja.

„Tekju­skatt­ur ein­stak­linga hef­ur lækkað og aukið ráðstöf­un­ar­tekj­ur heim­il­anna. Hlut­falls­lega hef­ur aukn­ing­in verið mest hjá þeim sem lægstu laun­in hafa. Öll al­menn vöru­gjöld hafa verið af­num­in og flest­ir toll­ar felld­ir niður. Trygg­inga­gjöld hafa lækkað,“ segir Óli Björn.

Þá segir hann að þrátt fyrir að ýmsir aðrir skattar og gjöld hafi hækkað hafi umsvifamiklar skattkerfisbreytingar leitt til þess að ríkissjóður hafi slakað verulega á klónni. Á þetta benti hann í grein í Morgunblaðinu í síðustu viku.

Hann segir að það sé kannski tilviljun að daginn eftir birtingu þeirrar greinar hafi Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar farið mikinn í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi til nýs fjármálaráðherra. Þar hafi hún haldið því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi „tekið“ tugi milljarða „út úr tekjustofni hins opinbera“ með lækkun skatta og að Sjálfstæðisflokkurinn stæri sig beinlínis af því að veikja velferðina.

„Satt best að segja varð ég fyr­ir nokkr­um von­brigðum þegar í ljós kom að Kristrún gef­ur hinum skattaglöðustu úr hópi vinstrimanna ekk­ert eft­ir. Mantr­an um að verið sé að „veikja“ tekju­stofna, „af­sala“ rík­is­sjóði tekj­um og jafn­vel „kasta“ frá rík­inu tekj­um, þegar slakað er á skattaklónni, lif­ir greini­lega enn góðu lífi meðal sam­fylk­inga. Sjálfsagt vakna ein­hverj­ir upp við vonda drauma frá tíð vinstri­stjórn­ar­inn­ar þegar þing­menn og ráðherr­ar kepptu hver við ann­an í skatta­hækk­un­um. Sitj­andi þing­menn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar boðuðu meira að segja allt að 80% tekju­skatt!“ segir Óli Björn.

Staðreynd­ir segja aðra sögu

Óli Björn bendir á að frá því Sjálfstæðisflokkurinn tók sæti í ríkisstjórn árið 2013 hafi framlög ríkisins í heilbrigðis- og öðrum velferðarmálum vaxið stöðugt. Hann nefnir að í fjárlögum þessa árs verði útgjöld til heilbrigðismála um 110 milljörðum hærri að raunvirði en árið 2013, sem sé tæplega 49% hækkun. Hann segir að áætlanir bendi til að útgjöldin verði hærri en reiknað var með í fjárlögum. Þá segir hann að framlögin hafi að meðaltali vaxið töluvert meira en Samfylkingin lofi að gera „í fremur inni­halds­lít­illi stefnu í heil­brigðismál­um til átta ára, sem kynnt var fyr­ir nokkr­um vik­um um leið og skatta­hækk­an­ir voru boðaðar.“

Óli Björn segir framlög til málefna aldraðra og öryrkja hafa hækkað á tíma Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn um nær 90 milljarða. Það jafngildi yfir 70% hækkun.

„Með skatta­lækk­un­um hef­ur Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn staðið að því að hækka fram­lög til heil­brigðismála og mál­efna aldraðra og ör­yrkja um nær 200 millj­arða að raun­v­irði,“ segir Óli Björn.

Hann segir að það komi sér verulega á óvart að formaður Samfylkingarinnar skuli ekki skilja að hófsemd í álögum styrki fremur skattstofna ríkis og sveitarfélaga en að veikja þá.

„John F. Kenn­e­dy gerði sér ágæta grein fyr­ir þessu fyr­ir rúm­um 60 árum þegar hann varaði við að efna­hags­kerfi sem væri þrúgað af háum skött­um skilaði aldrei nægi­leg­um tekj­um og byggi aldrei til nægi­leg­an hag­vöxt eða nægi­lega mörg störf,“ segir hann.

Þá segir hann reynslu okkar Íslendinga síðasta áratuginn renna styrkum stoðum undir hugmyndafræði forsetans fyrrverandi. Að það sé samhengi milli þess að þegar launafólk fái að halda meiru eftir af sínu sjálfsaflafé og njóti verulega hækkunar ráðstöfunartekna hafi tekjur ríkissjóðs aukist verulega. Það hafi svo gefið svigrúm til að stórhækka framlög til velferðarmála, þvert á fullyrðingar formanns Samfylkingarnnar.

„Sam­hengið milli skatta og efna­hags­legr­ar vel­meg­un­ar er sterkt. Þetta vissi Nig­el Law­son, sem var fjár­málaráðherra Bret­lands 1983 til 1989 í rík­is­stjórn Mar­grét­ar Thatcher. Hann henti háskatta­stefnu Verka­manna­flokks­ins út í hafsauga og lækkaði t.d. hæsta þrep tekju­skatts­ins veru­lega. Und­ir skatt­pín­ingu syst­ur­flokks Sam­fylk­ing­ar­inn­ar höfðu marg­ir flúið land og tekju­hæsta 1% greiddi aðeins 11% af öll­um tekju­skatti. Eft­ir skatt­kerf­is­breyt­ing­ar sem Law­son hafði for­ystu um tvö­faldaðist hlut­deild­in. Efsta tekju­tí­und­in hafði á tím­um háskatta staðið und­ir um 35% af heild­ar­tekju­skatti. Eft­ir lækk­un skatt­hlut­falls fór hlut­deild efstu tekju­tí­und­ar­inn­ar upp í 48%,“ segir Óli Björn.

Veru­leiki – ekki draum­sýn

Óli Björn segir að Kennedy og Lawson hafi báðir haft góðan skilning á að hófsemd í skattheimtu styrki skattstofna ríkisins, þvert á það sem fulltrúar Samfylkingar séu sannfærðir um og hamri stöðugt á.

„Hlut­falls­lega minni sneið af stærri köku gef­ur rík­inu meira en stór sneið af lít­illi köku,“ bendir hann á.

Hann segir að átakalínur stjórnmálanna markist ekki síst af viðhorfi til skattheimtu.

„Þótt það hafi verið mér von­brigði að formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar skuli ganga í smiðju hinna skattaglöðustu í hópi vinstrimanna er það í sjálfu sér gott að með því verða átakalín­ur stjórn­mál­anna aðeins skýr­ari,“ segir hann.

Þá segir hann að öðru megin línunnar standi þeir sem trúi því að hærri skattar leiði til meiri velmegunar og að með lækkun skatta sé ríkissjóður að „afsala“ sér tekjum og veikja velferðarkerfið. Þeir sem tali fyrir skattahækkunum hafi ekki áhyggjur af því að hvati einstaklinga til að afla meiri tekna, að skapa eitthvað nýtt, taka áhættu og stofna fyrirtæki verði drepinn með þungri skattheimtu.

„Og hinum meg­in átakalín­unn­ar stönd­um við hin sem erum sann­færð um að hóf­semd í álög­um á ein­stak­linga og fyr­ir­tæki sé víta­mín efna­hags­lífs­ins sem ríki og sveit­ar­fé­lög njóti góðs af. Við berj­umst fyr­ir því að auk­inn hluti hag­vaxt­ar verði eft­ir í vös­um launa­fólks og fyr­ir­tækja. Reynsl­an hef­ur kennt að þannig vegn­ar okk­ur öll­um best og mögu­leik­ar til að standa af mynd­ar­skap und­ir öfl­ugu vel­ferðar­kerfi og nauðsyn­leg­um fjár­fest­ing­um í innviðum sam­fé­lags­ins verða ekki aðeins draum­sýn held­ur veru­leiki,“ segir Óli Björn.

Greinina má í heild sinni finna hér.