Öxulveldi hins illa í sóknarhug víða

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Á dögunum sótti ég fund formanna utanríkismálanefnda á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum. Þar voru ýmis mál á dagskrá, en breytt staða í öryggis- og varnarmálum vegna ófriðarástands auðvitað fyrirferðarmest. Mikill samhljómur er með þessum nágranna- og vinaþjóðum þegar kemur að afstöðu til innrásar Rússlands í Úkraínu og óhætt að segja að betur sé tekið eftir varnaðarorðum Eystrasaltslandanna en var áður.

Hin ólögmæta árás Rússlands á Úkraínu var gerð undir því yfirskini að verið væri að frelsa rússneskan minnihluta undan oki og harðstjórn Úkraínumanna. Þeim sem höfðu og hafa lagt hlustir við skilaboðum Pútíns getur þó ekki dulist að yfirráð Úkraínu eru aðeins hluti af heimsvaldaplani hans. – Sýnin er endurreisn Rússlands til fyrri vegsemdar í samræmi við þá heimssýn sem hann hefur. Sú sýn er sannarlega ekki í samræmi við alþjóðalög og almennt viðurkennda heimssýn lýðræðisríkja.

Úkraínumenn berjast fyrir tilvist sinni og um leið fyrir sameiginlegum gildum lýðræðisríkja. Þar er háð gríðarlega mikil barátta sem einskorðast ekki við leikendur á vígvellinum. Hugmyndafræðileg samstaða hefur þjappað Vesturlöndum saman, a.m.k. um stundarsakir. Andspænis þeim standa ríki sem standa fyrir allt aðra hluti og eiga margt misjafnt sameiginlegt. Þetta eru ríki á borð við Rússland, Norður-Kóreu, Belarús og Íran.

Sömu sögu má segja um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs, endalausan vítahring ofbeldis. Hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael var einmitt ekki gerð í tómarúmi, heldur fyrir tilstuðlan klerkastjórnarinnar í Íran – einnar alræmdustu harðstjórnar heims.

Óhætt er að segja að heimurinn hefur ekki horft upp á meiri ógn í áttatíu ár eða svo. Áríðandi er að allir lýðræðissinnar tali einum rómi gegn ófriðaröflunum og leggi þar ekki vopnuð varnarviðbrögð að jöfnu við hryðjuverk.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. október 2023.