Strákarnir redda þessu!

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Nú er liðið tæpt ár frá því Einar Þorsteinsson, verðandi borgarstjóri, boðaði mestu hagræðingaraðgerðir hjá borginni frá hruni. Samhliða kynnti meirihlutinn tillögur – um 100 talsins – sem samanlagt skyldu skila einum milljarði í hagræðingu. Fremur dapurlegt útspil, magn umfram gæði, ekki síst þegar hallarekstur borgarsjóðs reyndist nær 16 milljarðar það árið.

Áframhaldandi hallarekstur

Síðustu ársreikningar Reykjavíkurborgar vöktu enga bjartsýni. Rekstrarhalli borgarsjóðs árið 2022 reyndist 15,6 milljarðar og skuldir héldu áfram að aukast. Borgarstjóri brást við ískyggilegri stöðu og boðaði sögulegan viðsnúning í rekstri borgarinnar strax á þessu ári. Oddviti Framsóknar lofaði að herða tökin, ráðast í umfangsmiklar hagræðingar og ná fram áþreifanlegum breytingum. Fólk skyldi anda léttar, strákarnir ætluðu að redda þessu!

Maður rak því óneitanlega upp stór augu þegar rekstraruppgjör borgarinnar, fyrir fyrstu sex mánuði ársins, var birt í borgarráði nýverið. Rekstr­arniðurstaða samstæðunnar reyndist nei­kvæð sem nam 6,7 milljörðum króna, en það er 12,8 millj­örðum króna lak­ari niðurstaða en áætl­un gerði ráð fyr­ir. En hvað veldur þessari neikvæðu sveiflu í rekstri samstæðunnar?

Keisarinn er nakinn

Þessi nei­kvæða sveifla kem­ur ekki síst til vegna væntr­ar af­komu tveggja stærstu dótturfé­laga borg­ar­inn­ar, Fé­lags­bú­staða og Orku­veitu Reykja­vík­ur.

Um margra ára skeið hefur rekstur borgarsjóðs stigversnað. Áhrif dóttur- og hlutdeildarfélaga borgarinnar hafa hins vegar gert meirihlutanum kleift að klappa sér á bakið fyrir rekstrarafrek við erfiðar aðstæður. Hækkandi álverð á heimsmörkuðum og sprenging í húsnæðisverði áranna 2020 til 2022 reyndust helstu ástæður þess að samstæða Reykjavíkuborgar skilaði jákvæðri niðurstöðu – jafnvel þó rekstur borgarsjóðs hafi í reynd farið versnandi með hverju árshlutauppgjörinu.

Nú gefur hins vegar á bátinn. Samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar átti samstæða borgarinnar að skila ríflega átta milljarða afgangi á árinu 2023. Var það ekki síst vegna væntrar afkomu tveggja stærstu dótturfélaga borgarinnar, Félagsbústaða og Orkuveitu Reykjavíkur. Samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2023 átti matsbreyting á fjárfestingaeignum Félagsbústaða að skila tæpum 7,6 milljörðum króna á yfirstandandi ári. Reyndin er sú að á fyrstu sex mánuðum ársins nemur matsbreyting á eignum Félagsbústaða um 580 milljónum króna.

Að sama skapi var áætluð afkoma OR á árinu 2023 ríflega 13,3 milljarðar króna. Reyndin er sú að Orkuveita Reykjavíkur tapaði 795 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Til að bíta höfuðuð af skömminni voru verðbólguforsendur borgarinnar fyrir árið 2023 4,9 prósent. Nú er ljóst að sú forsenda er strax fallin um sjálfa sig.

Ekki nema til komi sprenging í húsnæðisverði á Íslandi, rokhækkun á alþjóðlegu álverði og hraður samdráttur í innlendri verðbólgu, þá er augljóst að rekstur borgarinnar verður mörgum milljörðum lakari en fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir. Meirihlutinn getur ekki lengur sveipað hallarekstur borgarinnar skrautklæðum. Keisarinn er nakinn.

Hreyfum nálina!

Dapurlegar hagræðingaaðgerðir meirihlutans voru aldrei til þess fallnar að hreyfa nálina í rekstri borgarinnar. Hið sama má segja um ráðningarreglur sem kynntar voru samtímis og miðuðu fyrst og fremst að því að ráða ekki í ónauðsynleg störf. Frá þeim tíma hefur hver ónauðsynlega atvinnuauglýsingin á fætur annarri birst á vegum borgarinnar. Nú má ljóst vera að hvorki verður af þeim viðsnúningi sem borgarstjóri lofaði – né heldur þeim sögulegu aðgerðum sem oddviti Framsóknar boðaði.

Meirihlutaflokkarnir neita að axla nokkra ábyrgð á fjárhagsvandanum og beina fingrum sífellt á aðra. Borgarstjóri hefur áður lýst því yfir að borgin fari vel með fé og að engin mistök hafi átt sér stað í rekstrinum. Framsóknarflokkurinn boðaði breytingar. Nú er þriðjungur liðinn af kjörtímabilinu og það eina sem hefur breyst er fjárhagsstaðan – og það til hins verra.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks kalla eftir ábyrgum og heiðarlegum viðbrögðum við rekstrarvandanum. Ráðast þarf í hagræðingar, minnka yfirbyggingu, hefja eignasölu og skipulega niðurgreiðslu skulda. Einungis þannig hreyfum við nálina í rekstri borgarinnar.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 22. október 2023.