Bjarni og Þórdís Kolbrún skiptast á ráðuneytum

Á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag lét Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins formlega af embætti fjármála- og efnahagsráðherra og tók við embætti utanríkisráðherra. Þá lét Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins af embætti utanríkisráðherra og tók við embætti fjármála- og efnahagsráðherra. Að öðru leyti er ríkisstjórnin óbreytt.

Bjarni tók fyrst við embætti fjármála- og efnahagsráðherra í maí 2013 og gegndi því fram í janúar 2017 þegar hann tók við embætti forsætisráðherra sem hann gegndi fram til nóvember 2017. Þá tók hann að nýju við embætti fjármála- og efnahagsráðherra sem hann hefur gegnt óslitið síðan.

Þórdís Kolbrún tók við embætti utanríkisráðherra í nóvember 2021. Hún hefur lengst kvenna á Íslandi gegnt embættinu. Áður gegndi hún embætti ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra frá janúar 2017 þangað til hún tók við embætti utanríkisráðherra 2021. Þá gengdi hún um tíma embætti dómsmálaráðherra  árið 2019.