Bjarni stígur til hliðar sem fjármálaráðherra

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnti á blaðamannafundi í dag að hann hyggðist stíga til hliðar sem fjármála- og efnahagsráðherra.  Bjarni hefur gegnt embættinu frá því í maí 2013 að undanskildum nokkrum mánuðum á árinu 2017 þegar hann gegndi embætti forsætisráðherra.

Ástæða þess að Bjarni hyggst nú stíga til hliðar sem fjármála- og efnahagsráðherra er vel rakin í facebook-færslu sem sjá má hér að neðan sem hann birti í dag. Þar vísar hann í álit Umboðsmanns Alþingis vegna sölunnar á Íslandsbanka. Hann segist vera með algjörlega hreina samvisku í málinu. Þá segir hann margt í niðurstöðu umboðsmanns orka tvímælis og sé í andstöðu við það sem hann hafi áður fengið ráðleggingar um. Framkvæmd sölunnar hafi lögum samkvæmt verið í höndum Bankasýslunnar.

Bjarni segist telja mikilvægt að virða álit Umboðsmanns Alþingis þrátt fyrir hans álit á því og að hann telji í ljósi niðurstöðunnar að sér sé ókleift að starfa áfram sem fjármála- og efnahagsráðherra að frekari undirbúningi sölu á eignarhlutum ríkisins. Þá vilji hann skapa frið um embættið og þau mikilvægu verkefni sem þar séu unnin. Því hafi hann ákveðið að láta af embættinu.

„Sem formaður Sjálfstæðisflokksins vil ég senda þau skýru skilaboð að við störfum að almannaheill af fullum heilindum og að við berum virðingu fyrir þeim niðurstöðum sem stofnanir samfélagsins komast að, jafnvel þótt við séum ekki alltaf að fullu sammála þeirri niðurstöðu,“ segir Bjarni í facebook-færslu sinni sem lesa má í heild hér að neðan.