Meira af gullhúðun

Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:

Ekki hafði ég fyrr sent rík­is­stjórn­inni bréf, þar sem ég hvatti til þess að áhersla yrði lögð á að ís­lenskt reglu­verk yrði ekki meira íþyngj­andi en þörf kref­ur við inn­leiðingu EES-gerða, en til­efni gafst til að brýna þetta fyr­ir ráðherra.

Á dög­un­um lagði heil­brigðisráðherra í annað sinn fram frum­varp til laga um breyt­ingu á lyfja­lög­um og lög­um um lækn­inga­tæki. Mark­mið frum­varps­ins er að lög­festa upp­lýs­inga­skyldu um birgðastöðu lyfja og lækn­inga­tækja. Frum­varpið fel­ur í sér inn­leiðingu á ESB-reglu­gerð þar um, sem hef­ur að vísu ekki enn verið tek­in upp í EES-samn­ing­inn. Frum­varp heil­brigðisráðherra geng­ur engu að síður langt­um lengra en reglu­gerðin og er skýrt dæmi um að gengið sé lengra við inn­leiðingu en þörf er á; dæmi um svo­kallaða gull­húðun.

Íþyngj­andi kröf­ur frum­varps­ins eru af ýms­um toga. Þar er gerð krafa um að upp­lýs­ing­ar um birgðastöðu séu gefn­ar í raun­tíma og tek­ur til allra lyfja og lækn­inga­tækja. ESB-reglu­gerðin tek­ur samt aðeins til stakra lyfja og tækja sem eru á skil­greind­um lista. Frum­varp heil­brigðisráðherra legg­ur skyldu á herðar mun fleiri aðilum en reglu­gerðin og gengið er lengra varðandi deil­ingu þeirra upp­lýs­inga sem er aflað. Þá fel­ur frum­varpið í sér al­veg gríðarleg­an kostnað, m.a. við þróun og rekst­ur sér­staks kerf­is. Enga slíka kröfu er að finna í reglu­gerðinni.

Inn­lend fyr­ir­tæki og neyt­end­ur eiga að sitja við sama borð og aðrir á innri markaði ESB. Eng­in hald­bær rök hafa held­ur verið færð fyr­ir því að hér séu þær aðstæður að við þurf­um að ganga marg­falt lengra en þjóðirn­ar á meg­in­land­inu við að safna og deila þess­um upp­lýs­ing­um.

Í umræðum um frum­varpið á Alþingi hvatti ég heil­brigðisráðherra til að tóna niður frum­varpið svo að það verði í sam­ræmi við ESB-reglu­gerðina sem því er ætlað að inn­leiða. Ráðherr­ann brást að vísu vel við at­huga­semd­um mín­um og fleiri þing­manna sem tóku til máls og gef­ur það til­efni til bjart­sýni í þessu máli.

Því er reynd­ar ósvarað hvernig raun­tímaaðgang­ur ís­lenskra stjórn­valda að birgðastöðu lyfja og lækn­inga­tækja muni draga úr skorti sem má nær alltaf rekja til fram­leiðenda. Í öllu falli er það ólíðandi að gengið sé lengra við
meinta inn­leiðingu ESB-reglna en þörf er á og þannig meiri byrðar lagðar á ís­lenskt at­vinnu­líf en keppi­nauta þeirra ann­ars staðar í Evr­ópu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. september 2023.