Fjölbreytileika fórnað og valkostum ungs fólks fækkað

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Satt best að segja þá skil ég ekki hvernig stýri­hóp­ur mennta- og barna­málaráðherra komst að þeirri niður­stöðu að rétt væri að sam­eina Mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri og Verk­mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri. Boðað var til fund­ar og sam­ein­ingaráformin kynnt þrátt fyr­ir að eft­ir væri að „greina tæki­færi, kosti og galla þess að sam­eina skól­ana“, eins og kom fram í til­kynn­ingu á vef ráðuneyt­is­ins. Sú vinna var sögð eiga að fara fram „í sam­starfi við starfs­fólk beggja skóla, nem­end­ur og for­eldra, og munu skóla­meist­ar­ar VMA og MA stýra þeirri vinnu“. Skól­un­um er (var) ætlað að „skila drög­um að skipu­lagi og upp­bygg­ingu hins sam­einaða skóla í byrj­un nóv­em­ber“.

Sem sagt: Ráðherra ákveður að sam­eina tvo rót­gróna fram­halds­skóla, draga úr fjöl­breyti­leika og val­mögu­leik­um ungs fólks, áður en und­ir­bún­ings­vinna hef­ur farið fram eða ít­ar­leg grein­ing á kost­um og göll­um sam­ein­ing­ar. Af minna til­efni hef­ur verið sagt: Svona gera menn ekki!

Ekki farið eft­ir leiðbein­ing­um

Í ágætu leiðbein­inga­riti sem fjár­málaráðuneytið gaf út árið 2008 um sam­ein­ingu stofn­ana og tengd­ar breyt­ing­ar er bent á að sam­ein­ing sé iðulega nokk­urra ára ferli sem kalli á um­fangs­meiri og vanda­sam­ari breyt­ing­ar en al­mennt. Margt geti farið úr­skeiðis og vandaður und­ir­bún­ing­ur stuðli að góðum ár­angri:

„Hlutaðeig­andi ráðuneyti þarf að gæta þess að sam­ein­ing sé vel und­ir­bú­in og veita henni öfl­ug­an stuðning þar til sam­ein­ing­ar­ferl­inu er lokið. Fyrsta skrefið er að fela hópi manna að gera frum­at­hug­un áður en ákvörðun um sam­ein­ingu er tek­in. Vinn­an felst einkum í því að fjalla um stöðuna, móta framtíðar­sýn, setja skýr mark­mið með sam­ein­ingu, velja viðmiðanir, skoða val­kosti, greina hindr­an­ir og fjalla um álita­mál. Mælt er með því að setja niður­stöður í skýrslu sem lögð er til grund­vall­ar vandaðri kynn­ingu og ákvörðun.

Sam­ein­ingu stofn­ana fylgja yf­ir­leitt bæði kost­ir og gall­ar sem ætti að vega og meta með til­liti til annarra val­kosta. Sam­ein­ing er ekki sjálf­stætt mark­mið, held­ur leið til að ná öðrum mark­miðum.“

Í des­em­ber 2021 skilaði rík­is­end­ur­skoðandi stjórn­sýslu­út­tekt á stofn­un­um rík­is­ins, fjölda, stærð og stærðar­hag­kvæmni. Úttekt­in var frum­kvæðis­at­hug­un og þar var sér­stök at­hygli vak­in á eft­ir­far­andi:

„Afar mik­il­vægt er að und­ir­búa sam­ein­ing­ar af kost­gæfni eigi þær að skila til­ætluðum ár­angri. Brýnt er að gera frum­at­hug­un/​fýsi­leika­könn­un og skil­greina mark­mið með sam­ein­ingu. Efna þarf til víðtæks sam­ráðs og gera ít­ar­lega samruna­áætl­un. Þá þarf að virkja starfs­fólk þegar sam­ein­ingu er hrint í fram­kvæmd og meta ár­ang­ur af sam­ein­ingu.“

Leiðbein­ing­ar fjár­málaráðuneyt­is­ins og ábend­ing­ar rík­is­end­ur­skoðanda eru raun­ar svo sjálf­sagðar að ekki ætti að þurfa að setja þær niður á blað. En reynsl­an sýn­ir annað. Ekki verður séð að mennta- og barna­málaráðuneytið hafi farið eft­ir vinnu­regl­um sem þykja nauðsyn­leg­ar við und­ir­bún­ing sam­ein­ing­ar.

Á hálu laga­legu svelli

Reim­ar Pét­urs­son, hæsta­rétt­ar­lögmaður og fyrr­ver­andi formaður Lög­manna­fé­lags­ins, fær­ir rök að því að ráðherra skorti laga­heim­ild til að fyr­ir­skipa sam­ein­ingu skól­anna. Á face­book-síðu sinni bend­ir hann á að sérstaða skóla, sjálf­stæði og sam­keppni þeirra á milli hafi verið of­ar­lega í huga lög­gjaf­ans þegar lög um fram­halds­skóla voru sett árið 2008. „Mark­mið lag­anna var þannig m.a. að fram­halds­skól­arn­ir gætu markað sér sér­stöðu, fetað eig­in leiðir og byggt upp getu sína og færni til að þjóna mark­miðum sín­um á eig­in for­send­um. Sjálf­stæði skól­anna var aukið og miðstýr­ing var minnkuð.“

Hlut­verk ráðherra var skil­greint með af­markaðri hætti en áður í 3. gr. og í lög­skýr­ing­ar­gögn­um sé tekið fram að grein­in „í heild sinni und­ir­striki „aukið fag­legt sjálf­stæði fram­halds­skóla“. Sam­kvæmt 8. gr. lag­anna njóti skóla­stjóri í sam­ráði við skóla­nefnd mun meira sjálf­stæðis við ráðning­ar starfs­fólks en áður var. Í lög­skýr­ing­ar­gögn­um er tekið fram að með þessu sé eldra fyr­ir­komu­lag aðlagað „auknu sjálf­stæði skóla um fyr­ir­komu­lag starfs­manna­mála“. Auk þess er tekið fram að miðað sé við að ein­stak­ir skól­ar „ákveði sjálf­ir skipu­lag sitt“.“

Niðurstaða Reimars er að skyn­sam­leg­ast sé fyr­ir ráðherra, standi vilji hans til víðtækra sam­ein­inga fram­halds­skóla, að mæla „fyr­ir frum­varpi á Alþingi til sér­stakra laga um efnið þar sem mælt væri fyr­ir um efn­is­leg­ar for­send­ur sam­ein­ing­ar og aðild skóla­yf­ir­valda, nem­enda og annarra að sam­ein­ing­ar­ferl­inu“.

Svo seg­ir mér hug­ur að frum­varp af þessu tagi falli í grýtt­an jarðveg í þingsal.

Mis­skiln­ing­ur

Áform um sam­ein­ingu MA og VMA eru byggð á mikl­um mis­skiln­ingi. Hér er ekki verið að sam­eina stjórn­sýslu­stofn­an­ir eða eft­ir­lits­stofn­an­ir rík­is­ins. Ekki ein­kynja sýslu­mann­sembætti eða dóm­stóla, ekki skatt- og toll­stjóra, ekki veik­b­urða rík­is­stofn­an­ir sem sinna af­mörkuðum verk­efn­um. Nei. Ætl­un­in er að sam­eina mennta­stofn­an­ir, með ólík­ar hefðir, upp­bygg­ingu og skipu­lag náms. Skóla sem byggj­ast á ólíkri hug­mynda­fræði, sögu og menn­ingu og hafa hvor um sig náð góðum ár­angri. Skóla sem bjóða nem­end­um mis­mun­andi nám. Skóla sem eiga sam­vinnu en keppa engu að síður um nem­end­ur. Skóla sem hafa myndað festu og tæki­færi á öllu Norður­landi.

Hlut­verk yf­ir­valda mennta­mála er að fjölga val­mögu­leik­um ungs fólks og tryggja gæði náms­ins.
Það er ekki hlut­verk þeirra að draga úr fjöl­breyti­leika, reyna að steypa alla í sama mótið – rík­is­mótið. Þvert á móti er það ein grunn­skylda stjórn­valda að stuðla að sem mest­um fjöl­breyti­leika þannig að ungt fólk geti bet­ur
fundið nám við hæfi – þar sem áhugi þess og hæfi­leik­ar fá að blómstra.

Ein­hæfni og sam­keppn­is­leysi dreg­ur úr gæðum og lík­ur eru á því að færri finni nám við hæfi. Sömu lög­mál gilda um mennt­un og flesta aðra þjón­ustu. Sam­keppni kall­ar fram það besta fyr­ir neyt­end­ur. Skól­ar eiga að keppa um nem­end­ur en ekki taka þeim sem sjálf­gefn­um þar sem þeir eiga ekk­ert annað raun­hæft val. Skort­ur á sam­keppni er drag­bít­ur í mennta­kerf­inu, ekki tveir sjálf­stæðir fram­halds­skól­ar á Ak­ur­eyri.

Með sama hætti og hags­mun­ir nem­enda verða fyr­ir borð born­ir með sam­ein­ingu verður starfs­mögu­leik­um kenn­ara fórnað. Sög­unni og menn­ing­unni er kastað á hauga sög­unn­ar. Það er kór­rétt sem Jón Már Héðins­son, fyrr­ver­andi skóla­meist­ari MA, sagði í viðtali við mbl.is. Áformin um sam­ein­ingu „eru virðing­ar­leysi við það öfl­uga nám og starf sem unnið er í báðum skól­un­um“. Jón Már velt­ir því fyr­ir sér hvort ástæða þess að reynt sé að knýja á um sam­ein­ingu sé sú að ekki sé „til skóla­sýn og skóla­stefna fyr­ir Ísland, hvernig skólastarf og skóla við vilj­um hafa í land­inu“. Ég veit að við Jón Már von­umst báðir eft­ir því að hann hafi rangt fyr­ir sér.

Sam­ein­ing­in and­vana fædd

Það hef­ur verið sér­stak­lega ánægju­legt að fylgj­ast með hvernig nem­end­ur, kenn­ar­ar og at­vinnu­lífið á Ak­ur­eyri hafa tekið hönd­um sam­an um að koma í veg fyr­ir að áform um sam­ein­ingu gangi eft­ir. Fyrr­ver­andi nem­end­ur hafa ekki látið sitt eft­ir liggja (und­ir­ritaður er stúd­ent frá MA). Andstaðan er mik­il – svo djúp­stæð að sam­ein­ing­in er and­vana fædd.

Mennta- og barna­málaráðherra er ágæt­lega skyn­sam­ur. Þess vegna geng ég út frá því að hann grafi til­lög­ur stýri­hóps­ins djúpt niður í ómerkta skúffu ráðuneyt­is­ins, læsi henni og fleygi lykl­in­um.

Í stað fá­breyti­leik­ans á að lofa vind­um val­frels­is að blása um fram­halds­skóla­kerfið með öll­um blæ­brigðum sem fjöl­breyti­leik­inn gef­ur. Sam­fé­lagið mun allt upp­skera; betri skóla og meiri gæði mennt­un­ar, ný­sköp­un og hag­kvæm­ari og arðbær­ari nýt­ingu fjár­muna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. september 2023.