Hátt í 200 ungir sjálfstæðismenn sóttu 47. Sambandsþing Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) sem haldið var á Hótel Selfoss um helgina, að því er fram kemur í fréttatilkynningu SUS. Viktor Pétur Finnsson var kjörinn formaður sambandsins, Steinar Ingi Kolbeins var endurkjörinn í embætti 1. varaformanns og Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir var kjörin í embætti 2. varaformanns. Viktor Pétur tekur við embætti formanns af Lísbet Sigurðardóttur.
Ásamt Viktori, Steinari og Gunnlaugu voru 39 aðrir einstaklingar kjörnir í sambandsins, en þeir eru taldir upp hér neðst á síðunni.
Hægri sveifla á stefnu SUS
Á þinginu voru mál líðandi stundar í deiglunni sem og málefni ungs fólks. Aðaláherslumál þingsins voru að þessu sinni mennta- og skólamál, heilbrigðismál, húsnæðismál og verndarkerfi flóttamanna.
„Aðaláherslumál ungra sjálfstæðismanna á þinginu voru skýr og það var mikil hægri sveifla á stefnu okkar. Við viljum frelsisbyltingu í menntamálum með því að taka upp ávísanakerfi og fjölga sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum. Þannig getum við stóreflt nám á Íslandi, gefið foreldrum raunverulegt frelsi um menntun barna sinna sem byggir á þörfum og styrkleikum hvers barns á sama tíma og við bætum kjör og starfsaðstæður skólastarfsfólks.
Það sama er upp á teningnum í heilbrigðismálum. Við þurfum að fjölga einkareknum heilsugæslum, sérstaklega á landsbyggðinni, til að tryggja fólki betri þjónustu. Með því að láta fé fylgja sjúklingnum sköpum við hvata fyrir heilbrigðisstofnanir að bæta gæði og skilvirkni svo bið eftir heilbrigðisþjónustu minnki. Svona aukum við samkeppni og biðlistar minnka á sama tíma og þjónusta batnar til muna án þess að kosta einstaklinginn fúlgur fjár,“ er haft eftir Viktori Pétri, nýjum formanni SUS, í tilkynningu sambandsins.
Uppfærð stefna í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd
Yfirgnæfandi samstaða var um það í málefnastarfi þingsins að finna þurfi lausnir við þeim vandamálum í kerfinu sem snýr að umsækjendum um alþjóðlega vernd. Samþykkt var á þinginu að setja í stefnu SUS að stutt sé við þá hugmynd að koma á fót búsetuúrræðum með takmörkunum fyrir þá hælisleitendur sem ekki eiga samvinnu við yfirvöld, í kjölfar þess að hafa fengið synjun um hæli, þar til að brottvísun kemur og samrýmast þar með Schengen-svæðinu.
„Einnig tökum við skýrt fram í stefnunni að kærunefnd útlendingamála þurfi að endurskoða, enda er hún ólýðræðisleg og tekur veigamiklar ákvarðanir sem varða til að mynda fjármál hins opinbera án þess að bera neina pólitíska ábyrgð,“ segir Viktor að lokum.
Stjórnmálaályktun þingsins og uppfærð stefna SUS verða birt á næstu dögum.
Ný stjórn SUS:
- Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir
- Embla Kristín Blöndal Ásgeirsdóttir
- Hulda Dröfn Sveinbjörnsdóttir
- Sindri Már Smárason
- Björn Gunnar Jónsson
- Daníel Hjörvar Guðmundsson
- Eyrún Reynisdóttir
- Kristinn Jökull Kristinsson
- Selma Guðjónsdóttir
- Kristófer Már Maronsson
- Steinar Ingi Kolbeins
- Garðar Árni Garðarsson
- Arent Orri Jónsson
- Magnús Benediktsson
- Sonja Dís Johnson Guðlaugsdóttir
- Júlíus Viggó Ólafsson
- Jón Birgir Eiríksson
- Eymar Jansen
- Jens Ingi Andrésson
- Victor Snær Sigurðarson
- Lovísa Ólafsdóttir
- Birta Karen Tryggvadóttir
- Snædís Edwald
- Bryndís Bjarnadóttir
- Salka Sigmarsdóttir
- Dóra Tómasdóttir
- Hermann Nökkvi Gunnarsson
- Sveinn Ægir Birgisson
- Logi Þór Ágústsson
- Ingveldur Anna Sigurðardóttir
- Ragnar Óskarsson
- Guðni Kjartansson
- Kristín Amy Dyer
- Einar Freyr Bergsson
- Ragnar Bjarni Zoëga Hreiðarsson
- Franklín Ernir Kristjánsson
- Halldór Lárusson
- Helga Björg Loftsdóttir
- Birkir Örn Þorsteinsson
- Katrín Sigríður Þorsteinsdóttir Bachmann
- Inga Þóra Pálsdóttir
- Viktor Pétur Finnsson