Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra fóru fram í gærkvöldi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins við umræðuna voru Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra og Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður.
„Mikill hagvöxtur, fjölgun starfa — þetta sýnir að samfélagið okkar er allt á fullri ferð. Og það er við þessar aðstæður sem við komum hingað saman aftur að hausti til að setja nýtt þing. Þótt við eigum það gjarnan til í þessum sal að einblína á það sem aflaga fer í samfélaginu, það sem má betur fara, þá megum við ekki gleyma þeim miklu framförum sem hafa orðið,“ sagði Bjarni við umræðuna.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fór um víðan völl í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld. Hann benti á að hér á landi er hverfandi atvinnuleysi, 30 þúsund ný störf hafa orðið til frá síðari hluta árs 2020, góður gangur er í helstu atvinnugreinum og verðbólgan á niðurleið. Nú þurfi að snúa bökum saman og halda áfram á réttri braut.
Hann sagði helstu verkefnin þennan þingveturinn og til næstu ára vera að styðja við lægri verðbólgu og endurheimta stöðugleika sem mun verka eins og stökkpallur til enn frekari sóknar. Þá sagði hann ný tækifæri verða til hér á hverjum degi.
„Ný störf sem við hefðum varla getað gert okkur í hugarlund fyrir örfáum árum síðan. Hingað vill fólk flytja í stórum stíl, því hér er – þrátt fyrir öll viðfangsefni okkar í þjóðfélaginu – ansi hreint gott að búa. Það segi ég fullum fetum,“ sagði Bjarni.
Hér má finna ræðu Bjarna við stefnuræðu forsætisráðherra.
„Erum óumdeilanlega ein auðugasta og lánsamasta þjóð heims“
„Allt eru þetta framfarir þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur jafnan verið í fararbroddi, oft við mikla andstöðu. Þetta voru vörður á leið til velsældar, enda erum við óumdeilanlega ein auðugasta og lánsamasta þjóð heims. Það er ekki síst að þakka staðfestu, dugnaði og hugrekki þeirra kynslóða sem á undan gengu og stjórnmálamanna sem tóku gæfuríkar ákvarðanir,“ sagði Diljá Mist.
Hún sagði sigur í þorskastríðunum hafi verið sú gæfa sem breytt hafi landinu á skömmum tíma úr einu fátækasta ríki Evrópu í það ríki þar sem lífgæði eru einna mest á byggðu bóli . Þá sagði hún að víða um heim ætti lýðræð í vök að verjast, og meira að segja hér á Vesturlöndum þar sem hornsteinar lýðræðisins eins og frjáls skoðanaskipti eigi undir högg að sækja. Það væri ógnvænleg heimsmynd og þróun sem okkur hugnist ekki.
„Góð, eftirsóknarverð samfélög eru bæði frjáls og örugg, og það er þannig sem við búum til mestu lífsgæðin fyrir okkur öll,“ sagði hún.
Hér má finna ræðu Diljár Mistar við stefnuræðu forsætisráðherra.