Útgjaldasuð þingmanna afþakkað

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Í dag verður Alþingi sett í 154. sinn. Nýjabrumið er langt í frá farið af þessu fyrsta kjörtímabili mínu sem kjörinn fulltrúi á Alþingi og ég er full tilhlökkunar og bjartsýni fyrir þingvetrinum. Ég notaði sumarið vel til undirbúnings. Ég átti fjölmarga góða fundi með einstaklingum og fór í áhugaverðar heimsóknir, bæði til fyrirtækja og samtaka. Þá auglýsti ég enn á ný eftir ábendingum og umkvörtunum kjósenda og beindi nú sjónum sérstaklega að atvinnulífinu.

Mér er í mun að nýta tímann sem þjóðkjörinn fulltrúi vel, tímann sem nú er þegar hálfnaður. Í dag mun ég því leggja fram nokkur þingmál í tengslum við þau mál sem ég hef unnið að – nokkur ný, en önnur lögð fram að nýju. Málin verða reifuð sérstaklega í frekari greinaskrifum, en fjölmargar góðar ábendingar hafa borist frá atvinnurekendum. Meðal mála sem ég mun leggja fram að nýju eru frumvörp er varða ríkisstarfsmenn og opinbera styrki til stjórnmálaflokka. Auk þess sem ég mun enn og aftur leggja fram tillögu um viðhlítandi þjónustu vegna vímuefnavandans. Við höfum enda ekki enn opnað dyr heilbrigðiskerfisins nægjanlega fyrir fólki með vímuefnavanda.

Frá því reynsla komst á samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og ljóst varð í hvílíkt óefni og vanefndir stefndi hef ég tekið málið upp ítrekað – bæði í greinaskrifum og á Alþingi – og m.a. hvatt til endurskoðunar hans. Eftir því sem tíminn líður og frekari brestir koma í ljós bætast fleiri efasemdarmenn í hópinn og ljóst að sáttmálinn verður til umræðu á komandi þingvetri. Þar mun ég áfram leggja mitt af mörkum.

Staðan í efnahagslífinu, staða heimilanna, er auðvitað aðal áskorun og viðfangsefni vetrarins. Þar þurfum við þingmenn að taka höndum saman og beina kröftum okkar að því að koma jafnvægi á hagkerfið. Fjármálaráðherra hefur slegið tóninn með mikilvægum hagræðingaraðgerðum og það er vonandi að þingmenn svari ekki með gamalkunnu útgjaldasuði.

Okkur þingmenn mun ekki skorta verkefni í vetur og er vonandi að við höldum einbeitingu og gleymum okkur ekki í uppþotum og gestalátum.

Ég hvet fólk og fyrirtæki til þess að halda áfram að leita til mín.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. september 2023