Valfrelsi launafólks aukið

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Það er ekki alltaf sem ég gleðst þegar ég renni yfir sam­ráðsgátt stjórn­valda, þar sem áform um laga­setn­ing­ar, reglu­gerðir eða drög að frum­vörp­um og þings­álykt­un­um eru kynnt. Al­menn­ingi og hagaðilum gefst þar tæki­færi til að koma á fram­færi at­huga­semd­um og ábend­ing­um um hvað geti bet­ur farið. Að þessu leyti er sam­ráðsg­átt­in til fyr­ir­mynd­ar.

Margt af því sem birt­ist í sam­ráðsgátt­inni vek­ur lít­inn áhuga minn, annað veld­ur mér áhyggj­um og sumt von­brigðum. Á stund­um er illa hægt að verj­ast þeirri til­finn­ingu að stjórn­völd telji það sér­stak­an gæðastimp­il að há­marka fjölda laga­frum­varpa og -breyt­inga, þings­álykt­ana og reglu­gerða, að ógleymd­um stefn­um um hitt og þetta. En það kem­ur fyr­ir að ástæða er til að gleðjast – sjá að unnið sé að mik­il­væg­um fram­fara­mál­um. Fátt er gleðilegra en þegar haf­ist er handa við að auka frelsi ein­stak­linga.

Á fyrsta degi sept­em­ber kynnti Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála- og efna­hags­ráðherra áform um laga­setn­ingu er miðar að því að auka val­frelsi launa­fólks í ávöxt­un sér­eign­ar­sparnaðar. Vænt­an­legt frum­varp á að „fela í sér til­lög­ur um aukið val­frelsi ein­stak­linga í viðbót­ar­líf­eyr­is­sparnaði á þá leið að ein­stak­ling­ar geti sjálf­ir ákveðið fjár­fest­ing­ar­stefnu sparnaðar­ins og breyt­ing­ar á henni í sam­ráði við vörsluaðila“. Í svo­kölluðu áforma­skjali sem birt hef­ur verið í sam­ráðsgátt­inni seg­ir að til að ná mark­miðinu þurfi „að auka heim­ild­ir vörsluaðila viðbót­ar­líf­eyr­is­sparnaðar til að bjóða viðskipta­vin­um sín­um að hafa per­sónu­legt val um fjár­fest­ing­ar­stefnu viðbót­ar­líf­eyr­is­sparnaðar á þann veg að eig­andi slíks líf­eyr­is­sparnaðar geti sjálf­ur ákveðið fjár­fest­ing­ar og ávöxt­un sparnaðar­ins“.

Stefnt er að því að leggja frum­varpið fyr­ir Alþingi áður en árið er úti. Gangi allt eft­ir get­ur ís­lenskt launa­fólk því fagnað áfanga­sigri – auknu val­frelsi – á nýju ári.

Ástæða til að fagna

Aukið val­frelsi í líf­eyr­is­mál­um er hluti af stjórn­arsátt­mála þeirra þriggja flokka sem standa að rík­is­stjórn­inni. „Stefnt verður að því að finna leiðir til auka val­frelsi í viðbót­ar­líf­eyr­is­sparnaði með fjölg­un fjár­fest­inga­kosta,“ seg­ir í stefnu­yf­ir­lýs­ingu flokk­anna frá 2021. Í sam­ræmi við stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar hef­ur þegar verið lög­fest 15,5% lág­marksiðgjald í líf­eyr­is­sjóði sam­hliða til­greindri sér­eign. Þá er vinna haf­in við gerð græn­bók­ar um líf­eyri­s­kerfið í sam­vinnu við aðila vinnu­markaðar­ins og líf­eyr­is­sjóði. Mark­miðið er að skapa „grund­völl fyr­ir umræðu, stefnu­mörk­un og ákv­arðanir um líf­eyri­s­kerfið og framtíðarþróun þess með heild­stæðum hætti“. Horfa á til þess að ein­falda kerfið og greina „grund­vallar­for­send­ur varðandi hlut­verk, upp­bygg­ingu, sjálf­bærni og um­fang sjóðanna í efna­hags­líf­inu, upp­bygg­ingu rétt­inda og sam­spil milli ólíkra stoða líf­eyri­s­kerf­is­ins, nauðsyn­lega hækk­un líf­eyris­ald­urs og sveigj­an­leika til töku líf­eyr­is í sam­hengi við hækk­andi líf­ald­ur, trygg­inga­fræðileg­ar for­send­ur, fjár­fest­ing­ar­heim­ild­ir, starfs­um­hverfi og eft­ir­lit“.

Fyr­ir okk­ur sem höf­um bar­ist fyr­ir auknu frelsi launa­fólks til að ávaxta líf­eyr­is­sparnað sinn er ástæða til að fagna áform­um fjár­málaráðherra. Með þeim er ekki aðeins stuðlað að auk­inni sam­keppni milli líf­eyr­is­sjóða held­ur einnig (sem skipt­ir ekki minna máli) byggt und­ir áhuga og aukna vit­und al­menn­ings um fjár­hags­legt sjálf­stæði.

Mik­il­væg­ur áfangi

Nái áformin um laga­setn­ing­una fram að ganga er áfanga náð í bar­átt­unni fyr­ir fjár­hags­legu sjálf­stæði launa­fólks. Ég hef alla tíð litið svo á að ein helsta skylda Sjálf­stæðis­flokks­ins sé að vinna að því að gera launa­fólki kleift að öðlast fjár­hags­legt sjálf­stæði. Fátt trygg­ir bet­ur frelsi ein­stak­lings­ins – fjölg­ar tæki­fær­un­um og styrk­ir val­frelsi hans á vinnu­markaði, í hús­næðismál­um og á öðrum sviðum. Einn af horn­stein­um jafn­rétt­is er fjár­hags­legt sjálf­stæði.

Þrátt fyr­ir ýmsa galla er líf­eyr­is­sjóðakerfið dýr­mætt fjör­egg okk­ar Íslend­inga. Ég hef gengið svo langt að full­yrða að styrk­leiki líf­eyr­is­sjóðanna sé ein burðarstoð efna­hags­legr­ar vel­gengni þjóðar­inn­ar. Íslenska líf­eyri­s­kerfið á sér fáar hliðstæður í öðrum lönd­um. Ekki síst þess vegna er mik­il­vægt að breyt­ing­ar á kerf­inu séu vel ígrundaðar. Þótt svo­kallaðar græn­bæk­ur hafi verið mis­jafn­ar að gæðum og ekki alltaf staðið und­ir vænt­ing­um, er ástæða til að vænta mik­ils af þeim ein­stak­ling­um sem hafa tekið að sér að greina stöðu og framtíð líf­eyr­is­sjóðakerf­is­ins með heild­stæðum hætti.

Ég geri mér fylli­lega grein fyr­ir því að inn­an starfs­hóps­ins sem vinn­ur að græn­bók­inni eru skipt­ar skoðanir um hvað megi bet­ur fara. Annað væri óeðli­legt – jafn­vel óheil­brigt. Mark­miðið er að styrkja líf­eyri­s­kerfið enn frek­ar og auka hag­kvæmni þess. Hóp­ur­inn kemst því illa hjá því að fjalla um með hvaða hætti hægt er að auka aðhald að líf­eyr­is­sjóðunum og auka sam­keppni á milli þeirra. Það verður best gert með því að veita launa­fólki frelsi til að velja sér líf­eyr­is­sjóð vegna sam­trygg­ing­ar­hluta iðgjalda, óháð kjara­samn­ing­um og stétt­ar­fé­lög­um. Slík breyt­ing er í takt við vilja lands­manna og í sam­ræmi við ákvæði stjórn­ar­skrár um fé­laga­frelsi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. september 2023.