Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur framtíðarinnar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður og utanríkisráðherra kom víða við í ræðu sinni á flokksráðsfundi fyrr í dag.

Hún benti á að stjórnmálaástandið á Íslandi um þessar mundir einkenndist í raun af því að ástand á flestum vígstöðum væri í verulega góðum horfum.

„Ein hliðin á því er að helsta efnahags„vandamál“ Íslands nú, er að við glímum við helst til of mikinn hagvöxt, mikla þenslu, horfur í ríkisfjármálum eru betri hér en víða annars staðar, nýsköpunarfrumkvöðlar skapa ný verðmæti í alþjóðlegri samkeppni og samstarfi, og sama hvert litið er blasa við tækifæri um allt land,“ sagði hún og bætti við „samfélag okkar er álitið hið öruggasta í víðri veröld, Ísland nýtur velvildar og virðingar um heim allan, atvinnuvegir standa í blóma. Þetta gerist ekki að sjálfu sér.“

Hún lagði áherslu á að Sjálfstæðisflokkurinn sé undirstöðuafl í íslenskum stjórnmálum sem taki ábyrgð í samfélaginu: „Við tölum af ábyrgð, við sækjumst eftir ábyrgð og við stöndum undir ábyrgð,“ sagði hún.

„Við erum ekki flokkur fólks sem kvartar og kveinar. Við erum fólk sem tekur til hendinni. Við erum ekki flokkur sem horfir á verðmæti sem aðrir skapa og hugsar hvernig við getum náð þeim til okkar – nú eða leitað allra leiða til að koma þeim til ríkisins. Við hugsum hvað við getum gert til þess að auka við verðmætin, gera eitthvað nýtt. Hvernig finna frjálsir einstaklingar lausnir á vandamálum og leiðir til að skapa verðmæti. Og þar er okkur ekki vandi á höndum – því Íslendingar eru athafnafólk. Þótt Samfylkingin – hin gamla og hin nýja með jafnaðarmannaviðbótinni viti þetta virðir hún það ekki – því þeirra plan er alltaf, er alltaf að sækja meira og meira og meira. Það var það þegar skattahækkanirnar voru 112 á kjörtímabilinu sem vinstri menn komust til valda – og það er það sem þau mappa nú og matreiða. Eins og þau segja sjálf: Það þarf að fara og sækja tekjur þar sem svigrúm er,“ sagði varaformaðurinn.

Þórdís Kolbrún sagði að bæði þinglið og flokkur Sjálfstæðisflokksins stæði með Guðrúnu Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra í vandasömum verkefnum hennar. „Í málefnum hælisleitenda hefur lengi stefnt í óefni – og við höfum varað við því. Nú verður ekki hjá því komist að taka erfiðar en ábyrgar ákvarðanir. Þessar ákvarðanir hafa verið pólitískt vandasamar og valdið hvassviðri. Og við höfum hópa á báðum köntum sem vilja bersýnilega miklu frekar gera sér mat úr vandamálinu en að leysa það, sagði hún og bætti við: „Ég hafna slíkri nálgun algjörlega. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur ábyrgs fólks og ábyrgt fólk leggur sig fram um að leysa úr viðkvæmum vandamálum en reynir ekki að gera sér mat úr þeim.“

Hún sagði einnig að þótt margir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins væru mjög áhugasamir um að skilgreina hann þá horfðust þeir ekki í augu við ann sannleik að „ásamt því að hafa verið ábyrgasti og skynsamasti flokkurinn þegar kemur að því að gera Ísland að einu kröftugast á hagkerfi heims þá er það líka hluti af sögu Sjálfstæðisflokksins að okkur hefur tekist að móta samfélag í góðu jafnvægi. Hér fær atvinnulíf að blómstra, nýjar hugmyndir geta velt þeim gömlu úr sessi, sköpunarkraftur einstaklingsins nýtur sín, þeir sem til þess sá, geta notið afrakstursins bæði fjárhagslega og í virðingu meðborgara sinna. En hér er líka jöfnuður milli fólks með því mesta sem þekkist. Við förum ekki manngreiningarálit. Við erum samfélag þar sem venjulegt fólk getur náð óvenjulegum árangri.“ Og hún bætti við að Sjálfstæðisflokkurinn ætti þátt í því að Ísland væri meðal þeirra ríkja þar sem kynjajafnrétti væri mest og að virðing fyrir rétti fólks til þess að elska og vera elskað væri samofið þjóðarsálinni.

Að lokum sagði Þórdís Kolbrún í ræðu sinni: „Sjálfstæðisflokkurinn er ekki bara sá flokkur sem á mestan þátt í þeirri góðu sögu velferðar og framfara sem við getum sagt um fortíðina. Það er Sjálfstæðisstefnan sem sameinar okkur – vísar okkur veginn. Og þar af leiðandi er tilkall okkar til áhrifa í framtíðinni mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Við gerum það ekki í felum. Og við gerum það ekki sundruð. Við gerum það ekki nema bera höfuðið hátt og tala fyrir okkur málum, óhrædd, hvar sem er – hvenær sem er. Því Sjálfstæðisflokkurinn er – og verður – flokkur framtíðarinnar. “