„Ríkisfjármálin eru ekki að þvælast fyrir Seðlabankanum“

Aðgerðir ríkisins fyrr í vor voru bæði nauðsynlegar og skynsamlegar í baráttunni við aukna verðbólgu. Þá eru hagræðingaraðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem kynntar voru fyrr í dag, til þess fallnar að draga úr verðbólguþrýstingi.

Þetta er meðal þess sem kom fram í samtölum Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, við fjölmiðla í dag. Þá ítrekaði Bjarni að ríkisstjórnin hefði ekki komið í veg fyrir það að Seðlabankinn gæti beitt þeim verkfærum sem bankinn hefur til að sporna við verðbólgu.

„Það er hlutverk Seðlabankans að halda aftur af verðbólgunni og hann hefur til þess tæki og tól og er að beita þeim. Ég hef stundum saknað þess að Seðlabankinn láti sjálfur í það skína að hann hafi trú á því að þau verkfæri dugi,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is í dag og bætti því við að það væri langsótt að vísa ábyrgðinni á verðbólguhorfum á aðra en þann sem ber ábyrgð á því að halda aftur af verðbólgunni.

Hann sagði jafnframt að ríkissjóður hefði gert sitt til að draga úr umsvifum, og eins og áður hefur verið greint frá boðaði Bjarni 17 milljarða króna hagræðingu í rekstri ríkisins í morgun.

„Það er alveg skýrt að ríkisfjármálin með þeim mikla afkomubata hafa fyllilega staðið með peningastefnunefndinni að draga úr umsvifum. Afkomubatinn er hreinlega til vitnis um það. Það er gríðarlega mikill afkomubati árið 2022 – meiri en við gerðum ráð fyrir sjálf – og það hefur haldið áfram á þessu ári. Það er ekki hlutverk ríkisfjármálanna að vinna bug á verðbólgunni. Það er hlutverk Seðlabankans. Og ríkisfjármálin eru ekki að þvælast fyrir Seðlabankanum í því hlutverki,“ sagði Bjarni jafnframt.

Í samtali við vísir.is ítrekaði Bjarni að ríkisfjármálin væru á réttri leið.

„Við erum langt á undan áætlun að ná endum saman í ríkisfjármálum, og ég hef trú á að við getum náð tökum á verðbólgunni þó það sé meginhlutverk Seðlabankans að gera það,“ sagði Bjarni.