Fórnarlömb kommúnisma og nasisma mega ekki gleymast

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Árlegur minningardagur fórnarlamba alræðisstefnunnar í Evrópu er 23. ágúst. Það var á þessum degi árið 1939 sem ríkisstjórnir Sovétríkjanna og Þýskalands undirrituðu griðasáttmála sinn. Sáttmálinn hleypti af stað seinni heimsstyrjöldinni og með honum var meginhluta Evrópu skipt upp á milli tveggja alræðisstjórna og helstu bandamanna þeirra. Póllandi var skipt á milli Rússa og Þjóðverja. Stalín lagði Eystrasaltslöndin undir sig með velþóknun Hitlers og réðst jafnframt inn í Finnland. Hitler fékk hins vegar frjálsar hendur í Vestur- og Mið-Evrópu.

Fórnarlömb alræðisstjórna tuttugustu aldarinnar mega ekki falla í gleymsku. Efla þarf kennslu um hræðileg grimmdarverk þjóðernissósíalisma Hitlers og kommúnisma Stalíns í skólum. Ef þessi hræðilegu grimmdarverk falla í gleymsku er hætta á að slík hugmyndafræði geti náð fótfestu að nýju og breiðst út. Með því að fræða nýjar kynslóðir um eðli alræðisstjórna er hægt að draga úr líkum á því.

Greinar af sama meiði

Alræðisstefnur eiga margt sameiginlegt og eru í raun greinar af sama meiði. Hitler og Stalín fyrirlitu einstaklingshyggju en vildu veg ríkisins sem mestan. Víðtæk ríkisafskipti og valdboð voru réttlætt með því að þannig yrði hagsmunum heildarinnar helst þjónað. Alræðisstjórnirnar ofsóttu, fangelsuðu og drápu milljónir manna vegna pólitískra skoðana, kynþáttar, þjóðernis o.s.frv.
Hitler og Stalín stunduðu báðir víðtæka kúgun, mannréttindabrot og fjöldamorð innan landamæra sinna fyrir undirritun griðasáttmálans. Þeir tóku síðan upp sömu grimmdarverk í stórum stíl á þeim landsvæðum sem þeir lögðu undir sig með valdi Margar milljónir létu lífið í skipulögðum fjöldaaftökum, þrælabúðum, útrýmingarbúðum og gasklefum.

Eftir seinni heimsstyrjöld hélt kúgunin áfram í Sovétríkjunum og leppríkjum þeirra í Austur-Evrópu. Milljónir voru drepnar eða sendar í Gúlagið, risastórt fangabúðakerfi.

Talið er að fórnarlömb þýska þjóðernissósíalismans hafi verið um 20 milljónir en fórnarlömb kommúnismans um 100 milljónir á heimsvísu á liðinni öld.

Ríkisvaldi verður að halda í hófi

Sem betur fer er langt frá því hægt að líkja núverandi stjórnarfari í Vestur-Evrópu við hinar fjölmörgu alræðisstjórnir sem mannkynið fékk að kynnast á liðinni öld, hvort sem þær eru kenndar við vinstri eða hægri stefnur. Hollt er hins vegar að hugleiða að allar alræðisstjórnir byggjast á mikilli samþjöppun opinbers valds. Þær byggjast á þeirri trú að einstaklingarnir eigi að fela ríkisvaldinu forsjá sína enda sé hið opinbera best til þess fallið að leysa allan vanda þeirra.

Æskilegt er að hér á Íslandi fari fram hispurslausar umræður um hlutverk ríkisvaldsins og stöðu einstaklingsins gagnvart því. Stöðug útþensla hins opinbera á ekki að vera sjálfsagt mál og getur falið í sér miklar hættur eins og mörg dæmi sanna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. ágúst 2023.