Bjarni boðar umtalsverða hagræðingu

Gert er ráð fyrir 17 milljarða króna ráðstöfun til að hægja á vexti ríkisútgjalda. Þetta kom fra á blaðamannafundi Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra í morgun þar sem hann kynnti hagræðingaraðgerðir ríkisstjórnarinnar og áherslur hennar í ríkisfjármálum og efnahagsmálum.

Í því felst meðal annars hagræðingu í starfsmannahaldi upp á um fimm milljarða króna, lækkun rekstrarkostnaðar upp á um fjóra milljarða króna auk þess sem farið verður í frekara aðhald hjá ráðuneytum og verkefnum frestað, sem mun spara um átta milljarða króna. Samhliða þessu verður ráðist í frekari útboð á þjónustu, áherslu á hagkvæmari innkaup hins opinbera auk þess sem lögð verður áhersla á frekari þróun stafrænnar þjónustu. Þó verður áfram stutt við mikilvægar stoðir á sviði rannsóknar og þróunar, löggæslu, háskóla, orkuskipti og eflingu samgangna svo nokkur dæmi séu nefnd.

Á fundinum í morgun kom fram í máli Bjarna að til þess að ná markmiðum um hallalausan rekstur ríkisins á komandi árum samhliða því að endurheimta þann styrk sem ríkissjóður bjó yfir fyrir heimfaraldur þyrftu að koma til vel ígrunduð forgangsröðun í rekstri ríkisins eins og ofangreindar aðgerðir bera með sér.

Þá kom einnig fram í máli Bjarna að áætlanir gera ráð fyrir því að frumjöfnuður ríkissjóðs verði um 100 milljörðum króna betri í ár en áður hafði verið gert ráð fyrir. Þannig verði hann jákvæður um 50 milljarða, í stað þess að vera neikvæður um sömu fjárhæð. Þá stefnir í að rekstur ríkisins, sem varð fyrir verulegu tjóni á tímum heimsfaraldurs, verði hallarlaus árið 2025 í stað 2027 eins og áður hafði verið áætlað.

Þær hagræðingaraðgerðir sem kynntar voru í morgun eru í samræmi við stefnu og áherslur Sjálfstæðisflokksins um ábyrgan og hagkvæman ríkisrekstur, virðingu fyrir skattfé og mikilvægi þess að standa vel að baki framlínustarfsemi, meðal annars á sviði heilbrigðis – og velferðarmála.