Halldór Blöndal 85 ára í dag

Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og forseti Alþingis, er 85 ára í dag. Halldór gegnir nú formennsku í Sambandi eldri sjálfstæðismanna. Halldór var á Akureyri í dag og hitti nokkra félaga og trúnaðarmenn flokksins í tilefni afmælisins.

Halldór hóf þátttöku sína í stjórnmálum á Akureyri á námsárum sínum í Menntaskólanum á Akureyri – hann hefur allan sinn stjórnmálaferil unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir sjálfstæðismenn á svæðinu.

Í frétt á vef sjálfstæðismanna á Akureyri www.islendingur.is segir að Halldór hafi verið tengdur þingstörfunum með ýmsum hætti allt frá árinu 1961 og setið þingflokksfundi meginhluta þess tíma, sem erindreki flokksins, þingfréttaritari, starfsmaður þingflokksins, kjörinn fulltrúi – fyrst sem varaþingmaður flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1971-1979 og svo sem alþingismaður frá desemberkosningunum 1979 til vors 2007, síðustu fjögur árin fyrir Norðausturkjördæmi. Þá hefur hann setið þingflokksfundi sem formaður SES frá árinu 2009.

Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1991-1999. Hann var forseti Alþingis 1999-2005. Halldór er heiðursfélagi í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, sæmdur þeirri nafnbót á 75 ára afmæli félagsins í febrúar 2004 og Málfundafélaginu Sleipni, sæmdur þeirri nafnbót á fundi félagsins í október 2016.

Halldór hefur sem formaður SES sinnt öflugu starfi – verið með fjölmenna og öfluga pólitíska fundi með gestum í Valhöll í hádeginu á miðvikudögum.

Sjá nánar í frétt á Íslendingur.is hér.