Flokksráð Sjálfstæðisflokksins fundar á laugardag

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins opnar flokksráðsfund Sjálfstæðisflokksins kl. 12:30 laugardaginn 26. ágúst á Hilton Reykjavík Nordica.

Eftir setningarræðu formanns mun fundurinn ræða um nýjar áskoranir í öryggis- og varnarmálum þar sem þau Geir H. Haarde fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra og Bryndís Bjarnadóttir öryggissérfæðingur verða með erindi.

Forysta Sjálfstæðisflokksins mun ræða stjórnmálaviðhorfið og sitja fyrir svörum og í lok fundar fer fram málefnavinna og stjórnmálaályktun afgreidd.

Setningarræða Bjarna Benediktssonar verður send út í beinni útsendingu sem og ræða Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur varaformanns Sjálfstæðisflokksins síðar um daginn (Áætlað uppúr kl. 14:10). Í kjölfar ræðu Bjarna verður bein útsending frá fundarstað með viðtölum þar sem tekin verða til umræðu ýmis mikilvæg málefni, m.a. efnahagsmál, öryggis- og varnarmál, alþjóðleg vernd, orkumál, nýsköpun, sveitarstjórnarmál og heilbrigðismál. Útsendingin verður á facebook-síðu flokksins og stendur fram eftir degi.

Flokksráð Sjálfstæðisflokksins kemur að jafnaði saman annað hvert ár. Síðasti fundur var haldinn árið 2021. Flokksráð fer með næstæðsta vald í málefnum flokksins. Þar er mörkuð stjórnmálastefna flokksins og afstaða til einstakra mála á milli landsfunda.

Dagskrá og aðrar upplýsingar um fundinn má nálgast hér.

Kjörnir fulltrúar funda

Á morgun föstudag munu kjörnir fulltrúar flokksins, sveitarstjórnarmenn og þingmenn, funda í Valhöll ásamt formönnum landssambanda, kjördæmissamtaka og starfsfólki. Um er að ræða árlegan samráðsfund þar sem málefni ríkis og sveitarfélaga eru á dagskrá. Á fundinum í ár er áhersla á að ræða meðferð almannafjár út frá ýmsum sjónarhornum.