Seinni hálfleikur skipulagður

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Flokks­ráð Sjálf­stæðis­flokks­ins kem­ur sam­an til fund­ar á laug­ar­dag­inn. Í flokks­ráði sitja nokk­ur hundruð manns, alls staðar að af land­inu, með ólík­an bak­grunn, úr öll­um starfs­grein­um, launa­fólk og at­vinnu­rek­end­ur, ung­ir og gaml­ir, karl­ar og kon­ur. Þetta er fólkið sem ber uppi póli­tískt starf Sjálf­stæðis­flokks­ins og mót­ar stefn­una.

Með nokk­urri ein­föld­un er hægt að halda því fram að full­trú­ar í flokks­ráði eigi fyrst og síðast þrennt sam­eig­in­legt: Óbilandi trú á krafta frels­is­ins. Burði til að hugsa sjálf­stætt og fylgja hugs­un sinni eft­ir. Og umb­urðarlyndi gagn­vart ólík­um lífsviðhorf­um og lífs­hátt­um.

Á flokks­ráðsfund­in­um hafa all­ir í huga – meðvitað eða ómeðvitað – brýn­ingu Bjarna Bene­dikts­son­ar (1908-1970) á 25 ára af­mæli lýðveld­is­ins. Engu góðu verður komið til leiðar nema menn séu til­bún­ir „í senn að nenna að leggja á sig hugs­un og vinnu, ef þeir í raun og veru vilja knýja fram þær um­bæt­ur, er löng­un þeirra stend­ur til“.

Ágjöf

Þeir sem mæta til flokks­ráðsfund­ar­ins gera sér ágæt­lega grein fyr­ir því að rík­is­stjórn­in sigl­ir ekki lygn­an sjó. Fram und­an eru fjöl­mörg verk­efni sem verður að leysa af festu og trú­mennsku. Árang­ur­inn verður í besta falli tak­markaður ef trúnaður og traust rík­ir ekki á milli þeirra ólíku flokka sem standa að rík­is­stjórn­inni.

Óháð af­stöðu til hval­veiða er ekki hægt að rétt­læta stjórn­sýslu mat­vælaráðherra með fyr­ir­vara­lausri stöðvun veiða. Ákvörðunin var allt í senn ósann­gjörn, ekki sam­kvæmt lög­um og gekk gegn meðal­hófs­reglu og at­vinnu­frelsi sem var­in er af stjórn­ar­skrá. Ég hef áður haldið því fram að það sé póli­tísk­ur barna­skap­ur að halda að fram­ganga mat­vælaráðherra hafi ekki áhrif á sam­starf inn­an rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Sjálf­stæðis­fólk, sem berst fyr­ir at­vinnu­frelsi og vill tryggja að stjórn­sýsla sé sam­kvæmt lög­um og að stjórn­völd gæti sann­girni gagn­vart ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um, get­ur illa setið þögult.

Traust verður aldrei byggt á þögn­inni. Og þögn­in auðveld­ar ekki að leysa brýn verk­efni.

Hvaða vænt­ing­ar?

Á laug­ar­dag­inn þurfa sjálf­stæðis­menn að skipu­leggja seinni hálfleik í rík­is­stjórn. Það verður ekki gert nema þeir geri upp við sig hvaða vænt­ing­ar þeir hafa til rík­is­stjórn­ar­inn­ar og hvaða verk­efn­um eigi fyrst og síðast að ein­beita sér að. Óskalist­ar ein­stakra ráðherra mega ekki draga at­hygl­ina og kraft­inn frá því mestu skipt­ir.

Að mestu er aug­ljóst hvaða verk­efni rík­is­stjórn­in á að leggja áherslu á á síðari hluta kjör­tíma­bils­ins og um leið láta önn­ur til hliðar.

Aðhald í rík­is­fjár­mál­um er ein for­senda þess að end­an­lega verði komið bönd­um á verðbólg­una. Þar er rík­is­stjórn­in á réttri leið. Ráðherr­ar og stjórn­arþing­menn verða að stand­ast freist­ing­ar og kröf­ur um auk­in út­gjöld á kom­andi árum. Og það mun reyna á þegar nær dreg­ur kosn­ing­um. Stöðug­leiki í efna­hags­mál­um er for­senda að hægt sé að ná far­sæl­um kjara­samn­ing­um.

Hefja þarf stór­átak í grænni orku­fram­leiðslu og styrkja grunn­inn und­ir orku­skipti. Þar skipt­ir máli að ein­falda enn frek­ar reglu­verkið. Sam­hliða verður að tryggja raf­orku­ör­yggi um allt land, sem er und­ir­staða at­vinnu og byggðar. Án orku verða lít­il verðmæti til að standa und­ir öfl­ugu vel­ferðarsam­fé­lagi.

Um leið og vernd­ar­kerfi flótta­manna er varið verður að ná stjórn á mála­flokkn­um og þeim kostnaði sem skatt­greiðend­ur standa und­ir. Tryggja verður að þeir sem eru hér ólög­lega yf­ir­gefi landið svo fljótt sem auðið er. Önnur nor­ræn lönd eru ágæt­ar fyr­ir­mynd­ir í þess­um efn­um.

Hafi frétt­ir um of­beldi og skipu­lega glæp­a­starf­semi ekki sann­fært stjórn­ar­liða um nauðsyn þess að breyta lög­reglu­lög­um er fátt sem get­ur fengið þá til að horf­ast í augu við al­var­lega stöðu. Það verður hins veg­ar ekki und­an því vikist að veita lög­regl­unni aukn­ar heim­ild­ir til af­brota­varna, sam­hliða öfl­ugu eft­ir­liti með starf­semi henn­ar. Síðast en ekki síst er nauðsyn­legt að gera lög­regl­unni kleift að eiga mik­il­væg sam­skipti við syst­ur­stofn­an­ir í öðrum lönd­um í bar­átt­unni gegn skipu­lagðri glæp­a­starf­semi og hryðju­verk­um. Þetta er spurn­ing um þjóðarör­yggi.

Í aðdrag­anda kjaraviðræðna, sem verða flókn­ar og jafn­vel erfiðar, kemst rík­is­stjórn­in ekki hjá því að tryggja að rík­is­sátta­semj­ari hafi nauðsyn­leg verk­færi til að höggva á hnúta sem kunna að koma á erfiðar deil­ur. Annað er full­komið ábyrgðarleysi.

Verk­efn­in eru fleiri

En fyrst og síðast verður sjálf­stæðis­fólk um allt land að skynja að í rík­is­stjórn séu þing­menn og ráðherr­ar trú­ir grunn­hug­sjón­um. Að haldið verði áfram að berj­ast fyr­ir því að hver og einn fái að vera eins og hann er. Að all­ir hafi frelsi til að haga lífi sínu eins og þeir kjósa án þess að ganga á rétt annarra. Að staðinn sé vörður um at­hafna­frelsi ein­stak­linga – at­vinnu­frelsi er órjúf­an­leg­ur hluti af frjálsu sam­fé­lagi. Að fram­taks­semi ein­stak­linga sé ekki brot­in niður af hinu op­in­bera með þung­um álög­um, flókn­um regl­um eða beinni sam­keppni.

Ég hlakka alltaf til að mæta á lands- og flokks­ráðsfundi. Þeir eru „ætt­ar­mót“ fólks sem á sam­eig­in­leg­ar ræt­ur í hug­sjón­um sjálf­stæðis­stefn­unn­ar. Auðvitað verður tek­ist á og vissu­lega hleyp­ur ein­hverj­um kapp í kinn. Ein­mitt þess vegna er svo gef­andi að taka þátt í lif­andi starfi stjórn­mála­flokks sem sæk­ir kraft­inn í trúna á ein­stak­ling­inn og ork­una, í hrein­skiptn­ar umræður, fjöl­breytt­ar skoðanir og rök­ræður um nýj­ar hug­mynd­ir.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. ágúst 2023.