Var ekki kominn tími á breytingar?

Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn blés fyr­ir rúmu ári lífi í and­vana meiri­hluta í Reykja­vík und­ir for­ystu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Laun líf­gjaf­ar­inn­ar voru borg­ar­stjóra­keðjan sem hengd verður á Ein­ar Þor­steins­son eft­ir um fimm mánuði. Viðbrögð Fram­sókn­ar, viðbót­ar­inn­ar við meiri­hluta Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, við vanda­mál­um borg­ar­inn­ar hafa síðustu fjór­tán mánuði verið þau að víkja sér ávallt und­an ábyrgð og skella skuld­inni á fyrri meiri­hluta. Sú af­sök­un dug­ar nú þó skammt. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn í Reykja­vík þarf núna að bera ábyrgð á fjár­mála­óreiðunni, á leik­skóla­vand­an­um, á mis­tök­un­um og yf­ir­læti borg­ar­kerf­is­ins í garð íbúa. Þrátt fyr­ir lof­orð um breyt­ing­ar fyr­ir kosn­ing­ar hef­ur í raun lítið breyst.

Nú stefn­ir í sams kon­ar vanda í leik­skóla­mál­um og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn vék sér und­an að bera ábyrgð á fyr­ir ári. Rekstr­arniðurstaða fyrsta árs­fjórðungs var ná­lega tvö­falt verri en áætlan­ir gerðu ráð fyr­ir. Skamm­tíma­skuld­ir voru 2.600 millj­ón­um króna hærri en en fjár­hags­áætl­un árs­ins gerði ráð fyr­ir. Stutt er í hálfs­árs­upp­gjör og lík­legt er að það stefni í enn meiri óefni en hef­ur áður gert þrátt fyr­ir stór­karla­leg­ar yf­ir­lýs­ing­ar meiri­hluta Sam­fylk­ing­ar­inn­ar um rekstr­ar­átak, hagræðingu – og að ein­göngu verði ráðið í nauðsyn­leg störf. Ónauðsyn­legu störf­in liggja að vísu óbætt hjá garði en þegar hart er í ári þarf víst að færa fórn­ir.

Borg­ar­bú­ar verða síðan bara að vona að í vet­ur verði farið eft­ir niður­stöðu stýri­hóps um end­ur­skoðun á þjón­ustu­hand­bók vetr­arþjón­ustu og borg­in taki mið af magni snjó­kom­unn­ar og ryðji göt­ur í vet­ur þegar snjó­ar, en ekki á öðrum tím­um.

Stærsti vand­inn er samt að um allt í borg­ar­kerf­inu, kerf­inu sem á að þjón­usta borg­ar­búa, hef­ur hreiðrað um sig yf­ir­læti gagn­vart borg­ar­bú­um. Yf­ir­læti sem lek­ur frá yf­ir­stjórn borg­ar­inn­ar og smýg­ur um borg­ar­kerfið. Borg­ar­kerfið er ekki fyr­ir fólkið, fólkið er fyr­ir borg­ar­kerfið. Ef and­mæl­um er hreyft eða bara óskað eft­ir þjón­ustu er viðhorfið að best sé að „þegja og gera ekki neitt“, eins og heyrðist á fundi íbúaráðs Laug­ar­dals í vor.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn lofaði að breyta þessu en stóð ekki við það og sekk­ur því til botns í áliti borg­ar­búa með lof­orðið um borg­ar­stjóra­keðjuna eins og lóð um háls­inn.

Í þrjá ára­tugi hef­ur Sam­fylk­ing­in eða ígildi henn­ar og sam­starfs­flokk­ar farið með stjórn borg­ar­inn­ar. Þótt ým­is­legt hafi heppn­ast á þess­um þrjá­tíu árum stend­ur upp úr að Reykja­vík­ur­borg hef­ur aldrei staðið jafn illa fjár­hags­lega. Þess vegna geng­ur illa að leysa leik­skóla­vand­ann, þess vegna geng­ur illa að halda borg­inni hreinni og þess vegna geng­ur illa að veita grunnþjón­ustu.

Sam­fylk­ing­in lof­ar nú að gera fyr­ir Ísland það sem hún hef­ur gert fyr­ir Reykja­vík. Trúaðir hljóta að biðja til síns guðs að svo verði ekki, trú­laus­ir hljóta að signa sig engu að síður.

Fyr­ir kosn­ing­ar lofaði Fram­sókn breyt­ing­um. Þær hafa látið á sér standa og það eina sem við vit­um að muni breyt­ast er að í stað Dags B. Eggerts­son­ar sest Ein­ar Þor­steins­son í stól borg­ar­stjóra. Allt annað verður eins, fjár­mála­óreiðan, sviknu lof­orðin í leik­skóla­mál­um og yf­ir­lætið í garð borg­ar­búa verður hið sama og áður. Allt í boði lof­orða Fram­sókn­ar­flokks­ins um breyt­ing­ar í borg­inni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. ágúst 2023.