Góðar sumar-fréttir

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Sum­arið er yf­ir­leitt ekki tími stórra frétta. Gúrkutíð þekkja flest­ir blaða- og frétta­menn. Þá verður jafn­vel hið ómerki­lega, sem á öðrum tím­um vek­ur enga at­hygli, að „stór­frétt“ fjöl­miðla sem hafa ekki úr miklu að moða. Sum­arið er tím­inn þegar fólk vill slappa af. Eiga stund með sjálfu sér og sín­um nán­ustu. Njóta lífs­ins í slök­un, leggj­ast í ferðalög inn­an­lands og utan og sinna áhuga­mál­um bet­ur en aðra tíma árs­ins.

Það er hins veg­ar ekki hægt að kvarta yfir frétta­leysi sum­arið 2023. Þetta er sum­arið þar sem gúrkutíðin virðist ekki ætla að ganga í garð. Eld­gos á Reykja­nesi á hug og hjörtu fjöl­miðlamanna sem annarra lands­manna. Hval­veiðibann og stjórn­sýsla mat­vælaráðherra, birt­ing grein­ar­gerðar setts rík­is­end­ur­skoðenda um Lind­ar­hvol (sem ekki er sá póli­tíski elds­mat­ur sem stjórn­ar­andstaðan hafði von­ast til), sala á hluta­bréf­um í Íslands­banka og eft­ir­mál henn­ar, hita­bylgja í Evr­ópu hafa í nokkru fangað at­hygl­ina, a.m.k. tíma­bundið. Fyr­ir okk­ur áhuga­menn um knatt­spyrnu er heims­meist­ara­mót kvenna kær­kom­in afþrey­ing. Í sum­ar­fríi hafa fæst­ir hins veg­ar áhuga á frétt­um um efna­hags­mál. Af­koma rík­is­sjóðs, láns­hæfi, verðbólga og ut­an­rík­is­viðskipti eru ekki efst í hug­um þeirra sem reyna að nýta sum­arið til að hlaða batte­rí­in fyr­ir kom­andi vet­ur. Og ekki veit­ir af.

Áskor­an­ir og góða staða

Á kom­andi mánuðum og miss­er­um verðum við Íslend­ing­ar að mæta mikl­um áskor­un­um. Á vinnu­markaði reyn­ir á at­vinnu­rek­end­ur og launa­fólk. Það verður hvorki ein­falt né létt að tryggja aðhald í rík­is­fjár­mál­um og samþætta þau við skyn­sama stefnu í pen­inga­mál­um. Rík­is­stjórn­in (og eft­ir at­vik­um Alþingi) stend­ur frammi fyr­ir flókn­um verk­efn­um. Tryggja verður stór­sókn í orku­öfl­un – án orku verður stöðnun og orku­skipt­in draum­sýn. Koma þarf bönd­um á kostnað vegna mót­töku flótta­manna. End­ur­skoða verður sam­göngusátt­mála höfuðborg­ar­svæðis­ins frá grunni, stokka upp allt gjalda­kerfi um­ferðar og tryggja fjár­mögn­un viðamik­ill­ar upp­bygg­ing­ar sam­göngu­kerf­is­ins um allt land. Ná far­sælli niður­stöðu í end­ur­skoðun á trygg­inga­kerfi ör­yrkja. Móta hús­næðis­stefnu á grunni ein­fald­ara reglu­verks þar sem byggt er und­ir sér­eign­ar­stefn­una sam­hliða því að búa til jarðveg fyr­ir heil­brigðan leigu­markað. Verk­efna­list­inn er lang­ur.

En við erum í góðri stöðu til að tak­ast á við þess­ar og aðrar áskor­an­ir.

Við erum að ná ár­angri í bar­átt­unni við verðbólg­una. Ársverðbólg­an fór hæst í 10,2% í fe­brú­ar síðastliðnum en er kom­in niður í 7,6%. Enn er of snemmt að fagna sigri á göml­um fjanda enda erum við langt frá 2,5% verðbólgu­markaði Seðlabank­ans. En stefn­an er rétt. For­senda þess að hægt verði að byggja und­ir skyn­sama kjara­samn­inga með aukn­um kaup­mætti er að ár­ang­ur í verðlags­mál­um ná­ist til lengri tíma.

Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­in (OECD) reikn­ar með að verðbólga á kom­andi ári verði um 3,3% enda verði áfram aðhald í op­in­ber­um fjár­mál­um og pen­inga­mál­um. Að mati stofn­un­ar­inn­ar er staða efna­hags­mála góð. Í skýrslu OECD sem kynnt var í liðnum mánuði eru lagðar til ýms­ar aðgerðir til úr­bóta. Marg­ar til­lög­urn­ar eru skyn­sam­ar en aðrar bera þess merki að annaðhvort skilja sér­fræðing­ar OECD ekki ís­lensk efna­hags­mál eða viðhorf þeirra lit­ast um of af rör­sýn nokk­urra ís­lenskra emb­ætt­is­manna sem eiga erfitt með að skilja t.d. sam­hengi milli skatt­heimtu og sam­keppn­is­hæfni þjóða.

Betra láns­hæfi

OECD er ekki eini aðil­inn sem horf­ir já­kvæðum aug­um til efna­hags­mála á Íslandi. Alþjóðamats­fyr­ir­tækið Moo­dy‘s breytti fyrr í mánuðinum horf­um um láns­hæfi rík­is­sjóðs úr stöðugum í já­kvæðar og staðfesti A2-láns­hæfis­ein­kunn­ir rík­is­sjóðs. Nokkr­um vik­um áður hafði S&P Global Rat­ings gert hið sama. Moo­dy‘s rök­styður mat sitt:

· Góður ár­ang­ur stjórn­valda í að draga úr halla­rekstri rík­is­sjóðs og lækk­andi skulda­hlut­fall hins op­in­bera sem eyk­ur lík­ur á að styrk­ur op­in­berra fjár­mála verði end­ur­heimt­ur hraðar en áður var talið.

· Aukn­ar lík­ur eru á að sterk­ar vaxt­ar­horf­ur lyk­il­at­vinnu­vega og áfram­hald­andi viðleitni til að auka fjöl­breytni í efna­hags­lífi dragi úr áhrif­um áfalla á hag­kerfið í framtíðinni.

Þó ætla mætti annað af mál­flutn­ingi stjórn­ar­and­stöðunn­ar hef­ur af­koma rík­is­sjóðs ít­rekað verið betri en reiknað var með á síðustu árum. Í frétt á vef fjár­málaráðuneyt­is­ins kem­ur fram að út­lit sé fyr­ir að tekj­ur verði nær 50 millj­örðum króna hærri en gjöld fyr­ir vaxta­tekj­ur og vaxta­gjöld.

En jafn­vel þótt vel hafi tek­ist til er enn mikið verk eft­ir í rík­is­fjár­mál­um. Útgjöld­in eru of há og í alþjóðleg­um sam­an­b­urði eru skatt­ar of háir. En bætt láns­hæfi gef­ur von­ir um að rík­is­sjóður fái að njóta betri kjara í framtíðinni, ekki síst borið sam­an við önn­ur lönd sem berj­ast við mikl­ar op­in­ber­ar skuld­ir og lít­inn sem eng­an vöxt efna­hags­lífs­ins. Hag­stæðari lána­kjör rík­is­sjóðs og fyr­ir­tækja stuðla að bættri af­komu og styrkja lífs­kjör lands­manna.

Í skugg­an­um

Frétt­ir af já­kvæðum viðhorf­um er­lendra aðila til stöðu ís­lenskra efna­hags­mála fara fyr­ir ofan garð og neðan þegar við reyn­um að njóta nokk­urra sum­ar­vikna og falla í skugg­ann af eld­gosi og jarðhrær­ing­um. Hið sama á við um frétt Hag­stof­unn­ar um að verðmæti þjón­ustu­út­flutn­ings á tólf mánaða tíma­bili, frá maí 2022 til apríl 2023, hafi verið 798 millj­arðar króna og auk­ist um 53%. Á sama tíma er áætlað að verðmæti þjón­ustu­inn­flutn­ings hafi verið 590,5 millj­arðar og auk­ist um 36% miðað við tólf mánaða tíma­bilið þar á und­an. Þjón­ustu­jöfnuður var því já­kvæður um 207,5 millj­arða.

Og fáir hafa veitt at­hygli frétt um að eigið fé ein­stak­linga hækkaði um liðlega 1.600 millj­arða króna eða 26,5% á síðasta ári. Frá 2013 hef­ur eigið fé auk­ist um 250% – hvorki meira né minna.

All­ar þess­ar fjár­mála- og efna­hags­frétt­ir eru góðar sum­ar-frétt­ir og gefa til­efni til bjart­sýni sé rétt haldið á mál­um á kom­andi mánuðum og miss­er­um. Áskor­un­in felst í því að spila rétt úr góðri stöðu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. júlí 2023.