Skattlagning bílastæðanna

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi:

Meiri­hluti Sam­fylk­ing­ar, Fram­sókn­ar, Pírata og Viðreisn­ar hef­ur ákveðið að hækka bíla­stæðagjöld í miðborg Reykja­vík­ur um 40%. Við breyt­ing­una hækk­ar verð á bíla­stæði á gjaldsvæði P1 úr 430 í 600 krón­ur á klukku­stund. Einnig verður gjald­skyldu­tími á gjaldsvæðum P1 og P2 lengd­ur til kl. níu á kvöld­in alla daga. Þá verður tek­in upp gjald­skylda á sunnu­dög­um á áður­nefnd­um gjaldsvæðum.

40% hækk­un

40% hækk­un op­in­berra þjón­ustu­gjalda er lík­lega eins­dæmi þegar verðbólga mæl­ist um 9%. Um er að ræða ein­hverja mestu hækk­un á þjón­ustu­gjöld­um hjá Reykja­vík­ur­borg í marga ára­tugi eða síðan óðaverðbólga geisaði. Svo mik­il hækk­un geng­ur í ber­högg við við kröf­ur verka­lýðsleiðtoga og stjórn­mála­manna um að hið op­in­bera verði að gæta hófs varðandi gjald­skrár­hækk­an­ir og op­in­ber­ar álög­ur, í því skyni að ná verðbólg­unni niður. Auk­in gjald­heimta á Reyk­vík­inga með 40% hækk­un bíla­stæðagjalda og stækk­un gjaldsvæða, mun ekki stuðla að lækk­un verðbólg­unn­ar held­ur hækk­un henn­ar.

Breyt­ing­in hef­ur í för með sér stór­aukna gjald­töku af þeim bí­leig­end­um sem nýta bíla­stæði á um­rædd­um gjaldsvæðum í miðborg­inni og ná­læg­um íbúa­hverf­um. Með hækk­un­inni verða bíla­stæðagjöld í miðborg Reykja­vík­ur mun hærri en í mörg­um borg­um af svipaðri stærð í ná­granna­lönd­um okk­ar. Lík­legt er að svo mik­il hækk­un muni hafa nei­kvæð áhrif á rekstr­araðstæður margra versl­ana og þjón­ustu­fyr­ir­tækja í borg­inni. Að ferðamanna­versl­un­um frá­töld­um eru fáar al­menn­ar versl­an­ir eft­ir á Lauga­vegi. Full ástæða er til að ótt­ast að 40% hækk­un bíla­stæðagjalda fækki enn al­menn­um versl­un­um í miðborg­inni og dragi úr fjöl­breytni þeirra.

Skatt­ur eða þjón­ustu­gjald?

Ekki er er ein­ung­is verið að hækka bíla­stæðagjöld á þá sem sækja versl­an­ir eða aðra þjón­ustu í miðbæ­inn. Á sama tíma eru gjaldsvæði stækkuð þannig að þau ná einnig til hreinna íbúa­hverfa í Aust­ur­bæn­um og Vest­ur­bæn­um. Þúsund­ir Reyk­vík­inga, sem hingað til hafa getað lagt án sér­staks gjalds fyr­ir utan heim­ili sitt, þurfa nú að greiða fyr­ir það eða finna stæði ann­ars staðar í borg­inni.

Bíla­stæðagjöld eru í eðli sínu þjón­ustu­gjöld. Viður­kennt er að ef þjón­ustu­gjöld skili um­tals­vert hærri tekj­um en kost­ar að veita um­rædda þjón­ustu, sé ekki leng­ur um gjald­töku að ræða held­ur dul­búna skatt­heimtu. Með fyr­ir­hugaðri hækk­un verður hagnaður Reykja­vík­ur­borg­ar af bíla­stæðagjöld­um mörg hundruð millj­ón­um króna meiri en kostnaður­inn við að veita þjón­ust­una. Færa má rök fyr­ir því að slík gjöld séu því auka­skatt­ur, sem stand­ist ekki jafn­ræðis­reglu því hann leggst ein­göngu á íbúa sumra íbúa­hverfa og gesti þeirra.

Sam­ráði hafnað

Svo um­fangs­mikl­ar breyt­ing­ar á skipu­lagi bíla­stæðamála í borg­inni verðskulda að sjálf­sögðu vandað sam­ráð við borg­ar­búa og umræður á vett­vangi borg­ar­stjórn­ar. Það vakti því furðu mína þegar meiri­hlut­inn lagði til­lög­ur sín­ar fram eft­ir að borg­ar­stjórn var far­in í sum­ar­frí og krafðist þess að þær yrðu af­greidd­ar með for­gangs­hraða á tveim­ur dög­um.

Borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins fóru fram á að til­lög­ur meiri­hlut­ans yrðu kynnt­ar fyr­ir sam­tök­um rekstr­araðila í miðborg­inni og íbúa­sam­tök­um og íbúaráðum á svæðinu. Eðli­legt hefði verið að gefa öll­um þess­um aðilum kost á að tjá sig um fyr­ir­hugaðar breyt­ing­ar áður en þær hlutu af­greiðslu.

Meiri­hlut­inn kærði sig hins veg­ar ekki um það, felldi sam­ráðstil­lögu Sjálf­stæðis­flokks­ins og keyrði breyt­ing­arn­ar í gegn í mikl­um flýti á síðasta fundi um­hverf­is- og skipu­lags­ráðs Reykja­vík­ur fyr­ir sum­ar­frí.

Ljóst er að meðal íbúa og rekstr­araðila eru skoðanir skipt­ar um fyr­ir­komu­lag bíla­stæðamála í borg­inni. Ein­mitt þess vegna vildu borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins kalla eft­ir sam­tali og sam­ráði áður en ráðist yrði í svo víðtæk­ar breyt­ing­ar í miðborg­inni og aðliggj­andi íbúa­hverf­um.

Því miður var það ekki gert.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. júlí 2023.