Hverjir aðstoða Rússa við ólöglegar veiðar?

Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:

Á dög­un­um fékk ég svar frá ut­an­rík­is­ráðherra við fyr­ir­spurn minni um karfa­veiðar Rússa á Reykja­nes­hrygg. Rúss­ar eru þeir einu sem stunda veiðarn­ar þvert á bann Norður-Atlants­hafs­fisk­veiðinefnd­ar­inn­ar sem var sett á í kjöl­far ráðlegg­inga Alþjóðahaf­rann­sókn­aráðsins vegna veikr­ar stöðu stofns­ins. Til­efni fyr­ir­spurn­ar­inn­ar var um­fjöll­un fjöl­miðla um þjón­ustu Fær­ey­inga við rúss­neska tog­ara sem hafa stundað þess­ar veiðar á svæðinu, en bæði veiðar og þjón­usta við skip sem þar veiða falla und­ir bannið.

Í svar­inu kem­ur fram að Fær­ey­ing­ar hafi vissu­lega tekið und­ir bannið, en hafi borið við skorti á laga­heim­ild til þess að bregðast við því. Úr því hef­ur nú verið bætt þegar Fær­ey­ing­ar breyttu um­rædd­um lög­um nú í júní sl. Eft­ir það hafa borist fregn­ir af því að rúss­nesk­ir tog­ar­ar sigli með afla sinn alla leið til Nor­egs. Þar eð Norðmenn sátu hjá þegar um­rætt bann var samþykkt eru þeir ekki bundn­ir af því inn­an lög­sögu sinn­ar og geta því þjón­ustað Rússa. Þess­ar upp­lýs­ing­ar eru til­efni til frek­ari eft­ir­grennsl­ana. Afstaða Norðmanna, sem hafa hagn­ast gríðarlega á breyttri stöðu heims­mál­anna, að aðstoða Rússa kem­ur á óvart. Norðmönn­um á að vera tjónið af veiðunum vel ljóst.

Í um­ræddri fyr­ir­spurn spurði ég sömu­leiðis um rúss­neska tog­ara, sem hafa við veiðarn­ar verið staðnir að því að toga yfir fjar­skipt­a­strengi, og um viðbrögð ís­lenskra stjórn­valda. Þótt Rúss­ar njóti hér frels­is eins og aðrir til friðsam­legra sigl­inga er vitað að þeir hafa verið að snigl­ast í kring­um neðan­sjáv­ar­kapl­ana okk­ar. Ut­an­rík­is­ráðherra upp­lýsti að vegna þessa og breyttr­ar stöðu í ör­ygg­is­mál­um al­mennt hefði eft­ir­lit verið aukið með um­ferð rúss­neskra tog­ara um ís­lenska lög­sögu. Eft­ir­lit Land­helg­is­gæsl­unn­ar hef­ur þannig auk­ist, en sömu­leiðis eft­ir­lit í sam­starfi við ná­granna­ríki okk­ar, m.a. kaf­báta­eft­ir­lit.

Þætt­irn­ir Skugga­stríð sem unn­ir voru af rík­is­miðlum Norður­land­anna, að RÚV und­an­skildu, af­hjúpuðu um­fangs­mikla njósn­a­starf­semi Rússa sem bein­ist m.a. að því að kort­leggja fjar­skipt­a­strengi. Það er nauðsyn­legt að hér sé sam­fellt og virkt kaf­báta­eft­ir­lit. Eins og ut­an­rík­is­ráðherra benti á í svari sínu var ný­leg ákvörðun um að heim­ila banda­rísk­um kaf­bát­um að koma hingað til lands liður í auknu eft­ir­liti og trygg­ir betra ör­yggi neðan­sjáv­ar­innviða. Þrátt fyr­ir áróður sumra er ljóst að öfl­ug­ar varn­ir hafa fæl­ing­ar­mátt og auka því síður en svo lík­ur á árás á okk­ar friðsælu eyju.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. júlí 2023.