Ræddi málefni Lindarhvols á Sprengisandi í gær

„Ræddi um málefni Lindarhvols hjá Kristjáni á Sprengisandi í gær. Lagði áherslu á aðalatriði málsins sem er skýrsla Ríkisendurskoðanda um Lindarhvol frá 2020. Það er eina haldbæra skýrslan um málefnið af hálfu embættisins, sem falið var af Alþingi að hafa eftirlit með starfsemi félagsins. Öll gögn lágu til grundvallar þeirri skýrslu, líka vinnuskjal setts ríkisendurskoðanda frá 2018 sem nýlega var birt opinberlega, aflað var viðbótarupplýsinga, kallað eftir umsögnum þeirra sem málið varaði og málið kannað ofan í kjölinn. Niðurstaðan var að starfsemi Lindarhvols hafi verið lögum og reglum samkvæmt og markmið um hámörkum eigna uppfyllt,“ segir Teitur Björn Einarsson alþingismaður í nýlegri facebook-færslu en hann var í gær gestur á Sprengisandi á Bylgjunni þar sem málefni Lindarhvols voru til umræðu.

Teitur Björn spyr í færslunni hvort vegi þyngra í umræðunni nú, óklárað vinnuskjal setts ríkisendurskoðanda þar sem ekki lágu fyrir öll gögn og upplýsingar sem máli skiptu og ekki leitað umsagnar þeirra sem málið varðaði eins og lögbundið verklag embættisins kveður á um. „Eða lokaskýrsla embættisins tveimur árum seinna þar sem úttekin var kláruð á grundvelli allra gagna, nýrra upplýsinga aflað og lögbundinna umsagna leitað.“