Hendum ekki bílnum og kaupum hest

Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:

Vinnu­brögð Íslands­banka sem op­in­beruðust í sátt við fjár­mála­eft­ir­lit Seðlabank­ans voru mik­il von­brigði. Það er skilj­an­legt að málið skilji eft­ir vonda til­finn­ingu hjá fólki enda mörg­um brugðið yfir því sem þar mis­fórst og eins hef­ur margt mis­jafnt, og mis-satt, verið sagt allt frá fyrstu dög­um útboðsins. Í þessu máli sem öðrum skipt­ir þó máli að skilja kjarn­ann frá hism­inu.

Nú þegar sátt­in er ljós finnst mörg­um sem það sé fjar­stæðukennt að segja söl­una sögu­lega far­sæla. Það skal ekki gert lítið úr því að mis­brest­ir hafa komið í ljós við fram­kvæmd­ina sem hafa al­var­leg áhrif og verður að mæta af heiðarleika og festu. Sátt­in varp­ar til að mynda ljósi á óá­sætt­an­leg vinnu­brögð Íslands­banka þar sem al­menn­ir fjár­fest­ar fengu í ein­hverj­um til­fell­um stöðu fag­fjár­festa án þess að upp­fylla skýr­ar laga­leg­ar kröf­ur þar um. Af þess­um atriðum er auðvitað mik­il­vægt að læra þó ljóst sé að lög­um eða útboðsskil­mál­um var þar ekki um að kenna held­ur fram­kvæmd­inni af hálfu bank­ans. Hins veg­ar gengu for­gangs­mark­mið söl­unn­ar eft­ir, bet­ur en von­ir stóðu til, hvort sem litið er til verðs, af­slátt­ar eða eft­ir­markaðs svo nokkuð sé nefnt og verður einnig að fá að vera til­tekið í skoðun máls­ins í heild.

Málið hef­ur frá upp­hafi liðið fyr­ir að mik­il upp­lýs­inga­óreiða hef­ur ein­kennt það. Fyr­ir ein­ung­is nokkr­um dög­um kom fram enn eitt dæmið þess efn­is þegar þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar sagði í Kast­ljósi að upp­legg útboðsins hefði verið í lagi ef um hefði verið að ræða stofnana­fjár­festa eins og líf­eyr­is­sjóði, en þeim hafi verið „haldið utan við þetta“ eins og þingmaður­inn orðaði það. Það er skilj­an­legt að fólki þyki það skrítið – enda er það ekki rétt. Líf­eyr­is­sjóðir tóku ekki bara þátt held­ur voru um­svifa­mestu fjár­fest­ar útboðsins og eru lang­stærstu hlut­haf­ar bank­ans ásamt rík­is­sjóði.

Í sam­fé­lagi okk­ar eru illa rek­in fyr­ir­tæki og vel rek­in, góð vinnu­brögð og slæm. Lé­legt hand­bragð á stöku stað má þó ekki verða til þess að við gef­umst upp og kúvend­um verk­efn­inu. Við hend­um ekki bíln­um og kaup­um hest þótt það springi dekk. Það eru góðar og gild­ar ástæður fyr­ir því að stjórn­mál­in missi ekki móðinn nú í því verk­efni að halda áfram að losa um hlut rík­is­ins í Íslands­banka. Ríkið er langt því frá gæðastimp­ill á að fyr­ir­tæki gangi bet­ur en í einka­geir­an­um. Í banka­starf­semi þarf ekki að leita lengra en til sam­fé­lags­bank­ans Íbúðalána­sjóðs til að minna okk­ur á að rík­is­rekst­ur get­ur verið hrika­leg­ur þótt fal­leg­ur hug­ur liggi ef­laust að baki.

Prinsipp máls­ins um að losa ríkið af áhættu­söm­um fjár­mála­markaði stend­ur í mín­um huga óhaggað og mik­il­vægt að við höld­um áfram á þeirri mik­il­vægu veg­ferð eft­ir að hafa lagað dekkið sem sprakk og dregið nauðsyn­leg­an lær­dóm af því sem bet­ur hefði mátt fara.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. júlí 2023.