Costco, Hagkaup, Heimkaup og Nettó eru meðal þeirra smásala sem nú bætast í hóp þeirra fyrirtækja sem hyggjast selja einstaklingum áfengi í netsölu.
Aukið frelsi í sölu áfengis á neytendamarkaði hefur um árabil verið eitt af stefnumálum Sjálfstæðisflokksins. Hægt hefur verið að versla áfengi erlendis frá í gegnum netsölu um árabil en fá ár eru síðan slík sala hófst hérlendis.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp í desember um netsölu með áfengi en það náðist ekki í gegn á síðasta þingi.
„Ég get ekki dregið aðra ályktun en þá að vefverslun með áfengi sé lögmæt. Hér hafa verið margar vefverslanir með áfengi um nokkurra ára skeið og þetta hefur gengið vel. Persónulega finnst mér gott að sjá einkaframtakið stíga þarna inn og sú þjónusta er greinilega vel þegin af neytendum,“ sagði Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra við mbl.is þegar fréttist af því að Costco hyggðist hefja netsölu með áfengi.
„Í dag gilda engar sérstakar reglur um afhendingu sölutíma og á leyfum fyrir svona verslun. Því mætti segja að frumvarpið sem ég lagði fram sé frekar til þess fallið að þrengja að svona verslun. Að ramma inn núverandi ástand. Ég tel að það sé eðlilegt. Deilurnar hafa stundum snúið að því að þetta sé ekki fyrir allra augum í verslunum. Enginn er að tala um það og þetta er í fullu samræmi við þróun sem er í gangi á neytendamarkaði. Menn geta reynt að loka augunum fyrir því en einn daginn verða menn að opna þau og horfa framan í veruleikann,“ sagði Jón af sama tilefni.