Ert þú at­vinnu­rekandi? Viltu benda mér á eitt­hvað sem betur má fara?

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Ég tók nýlega þátt í umræðum í útvarpsþætti um hvaða meginlínur væru í gangi í íslenskum stjórnmálum og hvað skildi helst á milli manna og flokka, ef þá eitthvað. Mér kom fyrst til hugar að nefna að það væri ótrúlegt að uppgötva það að ekki væru allir stjórnmálamenn sammála um það hvernig verðmætin í samfélaginu yrðu til, þ.e.a.s. fjármagnið sem greiðir fyrir þjónustu hins opinbera. Sú óumdeilanlega staðreynd að það eru auðvitað fyrirtækin í landinu, atvinnulífið – fólkið sem starfar á almennum vinnumarkaði – sem skapar verðmætin sem síðan standa undir velferð okkar allra, þessi staðreynd hefur glutrast niður.

Efnahagsleg velferð okkar, atvinnustig og verðmætasköpun, er því grundvölluð á framtaki einstaklinga, sérstaklega þeirra sem reka og vinna hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Flókið regluverk og þungar álögur eru að sliga rekstur margra fyrirtækja. Eftirlitið er of mikið og kröfur til aðila með afmarkaðan og einfaldan rekstur úr hófi fram. Afleiðingin er sóun og minni framleiðni sem leiðir til lakari lífskjara en ella.

Við sjálfstæðismenn erum málsvarar framtaks og sjálfsbjargarviðleitni. Af þeim sökum mun ég nýta þinghléð í sumar til að vinna að þingmálum í þágu fyrirtækja. Ég óska því eftir ábendingum og umkvörtunum frá atvinnulífinu um rekstrarumhverfið hér. Ég geri mér fulla grein fyrir því hversu miklu samkeppnishæfni skiptir fyrir atvinnulífið og fyrir skyldu löggjafans og stjórnvalda til að tryggja hana. Aðeins þannig getum við tryggt almenningi áframhaldandi góð og jafnvel betri lífskjör.

Ég hvet atvinnurekendur því til að senda mér tölvupóst á dilja.mist@althingi.is.

Greinin birtist fyrst á Vísi 14. júní 2023