Kynntu sér stöðu jafnréttismála í flokknum

Í gær komu í heimsókn þrjár konur frá Tékkalandi og áttu fund með framkvæmdastjóra og upplýsingafulltrúa flokksins til að kynna sér stöðu jafnréttismála í flokknum.

Þær koma frá Czech NGO Forum 50% ráðstefnunni sem hefur verið haldin frá árinu 2004 og fókusar á kynjajafnrétti í tékkneskum stjórnmálum og samfélagi.

Þær eru á Íslandi þessa dagana til að kynna sér stöðu mála á Íslandi og hitta fulltrúa stjórnmálaflokka og samtaka hér á landi.

Á fundinum var farið yfir stöðu mála í Sjálfstæðisflokknum en kynjajafnrétti í flokknum er afar sterkt, jafnvel þó svo flokkurinn styðjist ekki við kynjakvóta. Meðal þess sem þær voru upplýstar um er staða kjörinna fulltrúa. Í þingflokknum sitja 7 konur og 10 karlar. En á framboðslistum 2021 voru 60 konur og 66 karlar. Í sveitarstjórnum sitja 55 konur og 58 karlar en á framboðslistum 2022 sátu 304 konur og 310 karlar. Í ríkisstjórn sitja af hálfu flokksins 2 konur og 3 karlar. Í þeim sveitarfélögum þar sem flokkurinn er í meirihluta eru konur ýmist bæjarstjórar eða leiðtogar í 12 af 23 sveitarfélögum. Þá voru þær jafnframt upplýstar um að konur séu leiðtogar flokksins í flestum af stærstu sveitarfélögum landsins, Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Akranesi og bæjarstjórar í tveimur til viðbótar þar sem flokkurinn er í meirihluta, Akureyri og Árborg. Einnig voru þær upplýstar um ýmis ákvæði í skipulagsreglum flokksins sem lúta að kynjajafnrétti og um þá staðreynd að fyrsti kvenráðherra og fyrsti kvenborgarstjóri landsins voru úr Sjálfstæðisflokknum svo fátt eitt sé nefnt.

Fundurinn var afar gagnlegur og fóru þær á honum yfir stöðuna í Tékklandi þegar kemur að jafnréttismálum.