Fjármálaáætlun samþykkt á Alþingi

Fjármálaáætlun áranna 2024-2028 var samþykkt á Alþingi í dag með 34 atkvæðum gegn 21. 2 þingmenn sátu hjá.

„Ég tek eftir því að menn telja ýmist að ríkisstjórnin skattleggi landsmenn ekki nægilega mikið eða að ríkisstjórnin dragi ekki nægilega mikið úr útgjöldum,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra við afgreiðslu fjármálaáætlunarinnar í dag.

Bjarni benti á að ríkisstjórnin væri búinn að kynna umfangsmiklar aðgerðir sem m.a. snúa að aðhaldi í Stjórnarráðinu, samdrætti í ívilnunum vegna ökutækjaeldsneytis á næsta ári um 7,5 milljarða, gjaldabreytingar á ferðaþjónustunni, og til viðbótar 9 milljarða aðhald sem áður var óútfært fyrir árið 2024.

Sagði hann þingmönnum velkomið að yfirbjóða þetta, en að þeir sem legðu fram tillögur um að gera eitthvað minna en 25 milljarða væru ekki að leggja neitt markvert til í baráttunni gegn verðbólgu.

„Þeir sem ekki geta lagt fram tillögur hér á þinginu í að auka aðhaldið og draga úr hallanum sem nemur svona hálfu prósenti af landsframleiðslu þeir eru eiginlega ekki marktækir í umræðunni eins og Samfylkingin sem telur sig hafa lagt eitthvað til í baráttunni í verðbólgu en lagði í raun og veru bara til 4 milljarða í betri afkomu sem að mælist ekki þegar við erum að reyna að átta okkur á aðhaldsstigi ríkisfjármálanna,“ sagði Bjarni.

Hægt er að kynna sér fjármálaáætlunina hér.