Ríkið getur sparað fjármagn

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Íslenska heil­brigðis­kerfið er um­fangs- og kostnaðarmesti hluti í rekstri hins op­in­bera. Með hækk­andi líf­aldri þjóðar­inn­ar og öðrum áskor­un­um sam­tím­ans held­ur þessi kostnaður áfram að hækka. Í raun hækk­ar hann það mikið að það verður erfitt fyr­ir ríkið að standa und­ir slíkri aukn­ingu.

Þess­ari þróun breyt­um við ekki nema við nýt­um hug­vitið, tækni og ný­sköp­un. Við þurf­um að for­gangsraða og inn­leiða tækni­lausn­ir og ný­sköp­un. Ekki ein­ung­is svo að kerfið verði hag­kvæm­ara og viðráðan­legra held­ur líka til að bæta þjón­ustu við sjúk­linga og létta á störf­um heil­brigðis­starfs­manna. Besti stuðning­ur­inn við ný­sköp­un er að ríkið nýti hana með raun­veru­leg­um hætti og sjái hag sinn í því að greiða fyr­ir hana.

Til þess að styðja við þessa þróun kynnti ég Flétt­una til leiks. Með Flétt­unni gefst heil­brigðis­stofn­un­um um allt land tæki­færi til að inn­leiða og nýta áhuga­verðar lausn­ir til að bæta þjón­ustu við sjúk­linga, stytta biðlista og auka hag­kvæmni og skil­virkni kerf­is­ins. Af því höf­um við öll hag.

Stuðning­ur­inn er háður því skil­yrði að ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæk­in eigi í nánu sam­starfi við stofn­an­ir eða fyr­ir­tæki í heil­brigðisþjón­ustu sem skuld­binda sig til að inn­leiða ný­sköp­un fyr­ir­tæk­is­ins. Flétt­an er því brú fyr­ir einkafram­takið inn í heil­brigðis­kerfið. Eitt hundrað millj­ón­um króna verður varið í slík verk­efni og um­sókn­ar­frest­ur er til og með 8. júní.

Við þurf­um þó ekki aðeins að auka skil­virkni og hag­kvæmni í heil­brigðis­kerf­inu held­ur í öll­um op­in­ber­um rekstri. Og það ger­um við best með inn­leiðingu tækni og nýrra lausna. Það er því mik­il­vægt að hið op­in­bera kaupi og nýti nýj­ar lausn­ir í sinni starf­semi, lausn­ir sem eru til þess falln­ar að spara fjár­magn til lengri tíma.

Þá höf­um við einnig sett af stað sam­starfs­samn­ing við Rík­is­kaup sem fel­ur í sér stuðning við verk­efni Rík­is­kaupa um ný­sköp­un í op­in­ber­um sparnaði. Mark­miðið er að draga úr rík­is­út­gjöld­um með því að stuðla að aukn­um inn­kaup­um á ný­sköp­un með sér­stakri áherslu á lausn­ir sem skapa sparnað í rekstri hins op­in­bera.

Við eig­um ekki og get­um ekki gert hlut­ina eins og við höf­um alltaf gert þá, við verðum að nýta tækn­ina, ný­sköp­un og nýj­ar lausn­ir ein­stak­linga og fyr­ir­tækja, ekki bara af því að þær eru betri held­ur eru þær líka hag­kvæm­ari.

Ábyrgð okk­ar stjórn­mála­manna er að hugsa hvernig við för­um sem best með fjár­muni. Þar sem vel er hlúð að ný­sköp­un­ar­um­hverfi spretta upp lausn­ir sem taka á úr­lausn­ar­efn­um okk­ar sam­tíma, auka hag­kvæmni og skil­virkni. Við eig­um að hugsa í lausn­um, ekki bara vanda­mál­um – og alls ekki í sí­felld­um aukn­um út­gjöld­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. júní 2023.