Fjölgum þriggja daga helgum

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:

Að stórhátíðum undanskildum eru hvítasunnuhelgin og verslunarmannahelgin kærkomnustu helgar ársins hjá launafólki. Enda eru þær þriggja daga helgar þar sem góður tími gefst til samveru með fjölskyldu og vinum. Þessar helgar eru fjölmargir Íslendingar á faraldsfæti á meðan aðrir njóta þess að slaka á heima við.

Það er umhugsunarvert af hverju ekki hafi enn tekist að skapa fleiri þriggja daga helgar hérlendis með því að færa staka frídaga að vori að helgum. Hér er átt við sumardaginn fyrsta, uppstigningardag og fyrsta maí.

Tvo fyrrnefndra frídaga ber alltaf upp á fimmtudag. Því verður til svonefndur klemmudagur, þegar almennt launafólk þarf að mæta til vinnu á föstudag, eftir frídaginn. Fyrsti maí færist hins vegar á milli vikudaga þannig að launafólk fær ekki alltaf frí þann dag. Síðastliðin tvö ár lenti 1. maí á helgi með þeim afleiðingum að flest launafólk fékk ekki frí vegna hans. Í ár lenti frídagurinn hins vegar á mánudegi þannig að úr varð kærkomin þriggja daga fríhelgi. Ef ákveðið væri að færa frídaginn vegna 1. maí að helgi og festa hann þar væri frídögum launafólks fjölgað um tvo á hverju sjö ára tímabili. Slíkt hefði umtalsverða kjarabót í för með sér, ekki síst nú, þegar beinar krónutöluhækkanir eru harðsóttari en áður. Það munar um minna.

Aukin verðmætasköpun

Margar þjóðir, t.d. Bretar og Bandaríkjamenn, hafa fært staka frídaga að helgum í því skyni að skapa fleiri þriggja daga fríhelgar fyrir vinnandi fólk. Þar dettur engum í hug að snúa aftur til gamla fyrirkomulagsins með því að færa frídagana aftur inn í miðja viku.

Samtök atvinnurekenda hafa lengi verið hlynnt því að stakir frídagar verði færðir að helgum. Stakir frídagar slíta í sundur vinnuvikuna og sú framleiðslustöðvun, sem af því leiðir, hefur mikið óhagræði í för með sér. Oft hefur verið bent á að afköst framleiðslufyrirtækja séu lítil í þeim vikum þegar stakan frídag ber upp á fimmtudag. Margir vinnustaðir eru starfræktir eftir skipulagi sem raskast þegar slík truflun verður á framleiðsluferlinu.

Fjölgun þriggja daga fríhelga yrði flestum kærkomin. Tilflutningur stakra frídaga gætu jafnvel aukið gildi viðkomandi hátíða.

Sumardagurinn fyrsti yrði auðvitað áfram á fimmtudegi en fríið vegna hans yrði fært yfir á föstudag. Mjög hefur dregið úr hátíðarhöldum í tilefni af deginum miðað við það sem áður tíðkaðist. En ég spái því að þau muni þau eflast á ný ef slík þriggja daga fríhelgi yrði sköpuð, sem að sjálfsögðu yrði kennd við daginn.

Sama máli gegnir um verkalýðsdaginn. Helgin yrði kennd við verkalýðinn eins og fyrsta helgin í ágúst er kennd við verslunarmenn og með langri helgi væri unnt að glæða hátíðarhöldin meira lífi.

Með breyttu fyrirkomulagi er líklegt að messur uppstigningardags yrðu haldnar að kveldi þess dags. Kvöldmessum hefur fjölgað enda eru þær oft betur sóttar en morgunmessur.

Vilji er allt sem þarf

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað flutt  tillögur um að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir tilflutningi stakra frídaga að vori þannig að úr verði samfellt helgarleyfi. Þeim tillögum hefur verið vísað inn í kerfið til vinsamlegrar skoðunar en án árangurs. Þingmenn Bjartrar framtíðar tóku málið ítrekað upp á Alþingi á sínum tíma og fluttu frumvörp og þingsályktunartillögur. Allt kom þó fyrir ekki þrátt fyrir ágætar undirtektir í byrjun. Þekkt er að sumir stjórnmálamenn eiga erfitt með að styðja góð mál ef þau eru ekki borin fram af þeim sjálfum. Tregðulögmálið lætur ekki að sér hæða.

Ef einhver skyldi nú halda að allt færi á annan endann við það að fjölga löngum fríhelgum með þeim hætti sem hér er lýst, mætti auðvitað gera slíka breytingu í tilraunaskyni. Mér segir svo hugur að slík breyting myndi mælast vel fyrir meðal flestra og engum detta í hug að snúa aftur til fyrra fyrirkomulags. Var ekki bjórinn leyfður í tilraunaskyni fyrir aldarþriðjungi?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. maí 2023.