Ört versnandi lánskjör Reykjavíkurborgar

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Reykjavíkurborg stóð við boðað skuldabréfaútboð 10. maí eftir að hafa aflýst tveimur síðustu útboðum, í mars og apríl, með skömmum fyrirvara. Niðurfelling tveggja útboða í röð mátti rekja til minnkandi áhuga fjárfesta og ört versnandi kjara borgarinnar í skuldabréfaútboðum í janúar og febrúar.

Reykjavíkurborg tók tilboðum fyrir tæplega 3,2 milljarða króna að nafnvirði í útboðinu 10. maí. Alls bárust tilboð fyrir 4,6 milljarða.

Tilboðum var tekið fyrir 1.280 milljónir að nafnvirði í verðtryggðum flokki á ávöxtunarkröfunni 3,61%. Í öðrum verðtryggðum flokki tók borgin tilboðum fyrir 1.880 milljónir á ávöxtunarkröfunni 3,50%. Ávöxtunarkrafa er með öðrum orðum það, sem kalla má lánskjör borgarinnar.

Kjörin á skuldabréfaflokkunum eru tæplega hálfu prósentustigi hærri en á verðtryggðum bréfum Lánasjóðs sveitarfélaga.

Tvöfalt verri kjör en ríkið

Hinn 10. maí, sama dag og Reykjavíkurborg seldi verðtryggð skuldabréf á gjalddaga 2032 á ávöxtunarkröfunni 3,60%, var ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf á gjalddaga 2033, 1,80%. Kjörin, sem Reykjavíkurborg bjóðast, eru því tvöfalt hærri en þau sem ríkinu bjóðast.Fyrir um ári var afar lítill munur á þeim kjörum, sem ríki og Reykjavíkurborg buðust á skuldabréfamarkaði. Síðan hefur staðan breyst mikið, Reykjavíkurborg í óhag. Álag á skuldabréf Reykjavíkurborgar er þannig tvöfalt hærra en ríkisins miðað við sambærileg bréf.

Á sama tíma og þessi slæma þróun á sér stað kýs borgarstjóri að hnýta í þá, sem halda um fjármál ríkissjóðs. Sama ríkissjóðs og tryggði að tekjufall borgarinnar varð ekkert í heimsfaraldrinum, meðal annars með því að sækja lánsfé á markaði.

Skuldabréfaútboð og lántökur eru sem fyrr mikilvirkasta úrræði vinstri meirihlutans til að fjármagna gífurlegan hallarekstur

Reykjavíkurborgar. Samkvæmt fjárhagsáætlun er áformað að borgarsjóður taki allt að 21 þúsund milljónir króna að láni á árinu 2023.

Stór og stöndug sveitarfélög njóta að jafnaði mjög góðra kjara á skuldabréfamarkaði. Þau þykja vera góður skuldari enda með kverkatak á skattgreiðendum. Það hljóta þó að vera takmörk fyrir því hvað óábyrgir stjórnmálamenn geta leyft sér að hlaða miklum skuldum á uppvaxandi kynslóðir.

Miðað við að veltufé frá rekstri borgarinnar, sem ætlað er að standa undir afborgunum lána og nýjum fjárfestingum, er nú orðið neikvætt svo milljörðum skiptir, hljóta þessi takmörk að nálgast.

Vaxtabyrðin þyngist

Ávöxtunarkrafa skuldabréfa eru mikilvæg vísbending um það traust sem útgefendur þeirra (Reykjavíkurborg í þessu tilviki) nýtur á fjármálamarkaði. Sérfræðingar á vegum fjárfesta fylgjast grannt með rekstri og skuldastöðu útgefenda og breytist ávöxtunarkrafan eftir því hversu líklegt er að þeir standi við skuldbindingar sínar.

Að undanförnu hefur ávöxtunarkrafa, sem gerð er til skuldabréfa Reykjavíkurborgar hækkað og er hún nú töluvert hærri en kröfur á samanburðarhæf bréf. Hækkun kröfunnar má rekja til lélegs rekstrar og ört versnandi skuldastöðu borgarinnar. Hækkun kröfunnar leiðir til þyngri vaxtabyrði borgarinnar á nýjum lánum. Lánsfjárm

 

arkaðurinn verðleggur eðlilega viðvarandi hallarekstur og skuldasöfnun borgarinnar.

Langvarandi óreiða í rekstri

Þróun lánsfjármögnunar Reykjavíkurborgar er uggvænleg vísbending um mjög slæma fjárhagsstöðu hennar. Tölurnar tala sínu máli.

Þau afarkjör, sem Reykjavíkurborg sætir nú á skuldabréfamarkaði, eru dapurlegur vitnisburður um fjármálastjórn borgarinnar undanfarin ár. Reksturinn virðist vera fullkomið aukaatriði í augum borgarstjóra. Áhugi hans beinist helst að því að finna ný útgjaldaverkefni og hlaða upp skuldum eins og enginn væri morgundagurinn. Fjármálaóreiðan eykst eftir því sem borgarfulltrúum fjölgar og fleiri flokka þarf til að mynda meirihluta í borgarstjórn.

Engin breyting hefur orðið á fjármálaóreiðunni í ráðhúsi Reykjavíkur þrátt fyrir að Framsóknarflokkinn ynni kosningasigur í nafni breytinga. Sá flokkur kaus að endurreisa fallinn vinstri meirihluta og fjármálastefnu hans eftir kosningarnar 2022, í skiptum fyrir borgarstjórastólinn.

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 18. maí 2023.