94 ár frá stofnun Sjálfstæðisflokksins

Í dag eru 94 ár síðan Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins þann 25. maí 1929. Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá upphafi barist fyrir atvinnufrelsi og frelsi einstaklingsins, afnámi hvers kyns hafta, samvinnu við aðrar þjóðir og fleiri framfaramálum sem hafa haft afgerandi áhrif á hag þjóðarinnar og lagt grunn að þeirri velsæld sem hún býr við í dag.

Flokkurinn hefur frá stofnun setið í flestum ríkisstjórnum á Íslandi. Nú síðast samfellt frá árinu 2013 – sjá frétt hér frá 23. maí sl. þegar áratugar var minnst af samfelldri stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og farið yfir mörg þeirra stóru mála sem flokkurinn hefur áorkað á þeim tíma. Hér má jafnframt finna myndband með Bjarna Benediktssyni formanni flokksins og fjármála- og efnahagsráðherra þar sem klippt hafa verið saman nokkur myndskeið frá þessum áratug að sama tilefni.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur jafnframt haft á að skipa stærsta þingflokkinn á Alþingi í gegnum tíðina að undanskyldu einu kjörtímabili. Nú sitja 17 þingmenn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Þá á flokkurinn kjörna fulltrúa í 35 sveitarstjórnum, alls 113 sveitarstjórnarfulltrúa og starfar í meirihluta í 21 sveitarfélagi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki einungis notið mests fylgis heilt yfir í gegnum tíðina í kosningum til Alþingis heldur er hann jafnframt fjölmennasti stjórnmálaflokkur á Íslandi. Trúnaðarmenn flokksins um land allt telja nokkur þúsund einstaklinga sem sitja í stjórnum liðlega 160 félaga og ráða, í fulltrúaráðum, kjördæmisráðum, nefndum, flokksráði og landsfundir flokksins sem haldnir eru að jafnaði annað hvert ár eru fjölmennustu stjórnmálasamkomur á Íslandi.

Nánar má lesa um sögu flokksins hér.