Fröken blönk

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Hún er nokkuð þekkt, forsíðan sem For­bes-tíma­ritið birti und­ir lok árs 2007, með mynd af manni sem talaði í Nokia-farsíma og þeirri spurn­ingu velt upp hvort nokk­ur gæti velt „kon­ungi farsím­anna“ úr sessi. Þessi forsíða er oft dreg­in upp enda vit­um við sem er að þetta sama ár kynnti Apple til leiks nýj­an síma, iP­ho­ne, sem inn­an fárra ára átti eft­ir að velta Nokia úr sessi. Á þeim rúma hálf­um öðrum ára­tug sem er liðinn síðan þá hafa Apple, Sam­sung og aðrir fram­leiðend­ur kynnt til leiks stór­brotna síma en Nokia setið eft­ir. Það hafa verið skrifaðar marg­ar lærðar grein­ar um það hvernig Nokia varð und­ir og fyr­ir því eru fjöl­marg­ar ástæður. Ein af þeim sem vega þar þungt er viðhorf stjórn­enda fé­lags­ins til framþró­un­ar og vænt­inga neyt­enda. Með ein­föld­um hætti má segja að stjórn­end­ur Nokia töldu sig vita bet­ur en al­menn­ing­ur hvaða síma ætti að nota og hvernig.

Þessi stutta og ein­falda upp­rifj­un minn­ir að vissu leyti á stöðu Reykja­vík­ur­borg­ar, sem var einu sinni vel rek­in og öfl­ug borg, sem veitti góða þjón­ustu og eft­ir­sótt var að búa í. Frök­en Reykja­vík var áður drottn­ing en er núna blönk og hef­ur ekki burði til að þjón­usta íbúa sína með full­nægj­andi hætti.

Í grein sem ég skrifaði í fe­brú­ar 2021 sagði ég að ef Reykja­vík­ur­borg væri heim­il­is­bók­hald væri rekst­ur heim­il­is­ins í járn­um og yf­ir­drátt­ur­inn full­nýtt­ur þrátt fyr­ir að heim­il­is­menn hefðu fengið launa­hækk­an­ir síðustu ár. Grein­in vakti litla kátínu meðal meiri­hlut­ans sem svaraði með hefðbundn­um hætti; skæt­ingi og út­úr­snún­ing­um. Síðan þá hef­ur fjár­hags­staðan bara versnað og yf­ir­drátt­ur­inn er kom­inn í há­mark. Ólíkt heim­il­is­bók­hald­inu hleyp­ur þessi yf­ir­drátt­ur þó á millj­örðum.

Fjár­hags­vand­ræði Reykja­vík­ur urðu þó ekki til af sjálfu sér. Þau koma til þar sem vinstri meiri­hluti borg­ar­stjórn­ar hef­ur lagt meiri áherslu á sín eig­in hugðarefni frek­ar en þjón­ustu við íbúa. Það er búið að halda ótelj­andi íbúaþing og íbúa­kosn­ing­ar þar sem fólki er gef­inn kost­ur á að velja úr eðli­leg­um viðhalds- og upp­bygg­ing­ar­verk­efn­um, en á sama tíma hafa borg­ar­bú­ar enga val­kosti um dag­vist­un, skóla, sam­göngu­máta eða aðra þjón­ustu. Þegar for­eldr­ar barna í mygluðum skóla láta í sér heyra yppa borg­ar­full­trú­ar öxl­um og þegar fólk lokast inni vegna snjó­komu er bent á að þjón­ustu­hand­bók um vetr­arþjón­ustu sé í end­ur­skoðun. Þá er ótal­inn leik­skóla­vand­inn, skort­ur á viðhaldi og um­hirðu, sís­tækk­andi yf­ir­stjórn og önn­ur atriði sem ým­ist skýr­ast af bágri fjár­hags­stöðu eða skorti á vilja borg­ar­yf­ir­valda til að þjón­usta íbúa.

Rétt eins og stjórn­end­ur Nokia þurftu á end­an­um að viður­kenna að þeir gátu ekki sagt fólki hvernig síma það átti að nota, þurfa stjórn­end­ur Reykja­vík­ur að viður­kenna að borg­in er til fyr­ir fólkið en ekki öf­ugt.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. maí 2023.