Minnisvarði um upphlaup

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Þór­hild­ur Sunna Ævars­dótt­ir þing­flokks­formaður Pírata var ekki að skafa utan af því í þingsal þegar van­traust­stil­laga fjög­urra stjórn­ar­and­stöðuflokka á Jón Gunn­ars­son dóms­málaráðherra var rædd á Alþingi 30. mars síðastliðinn. Hún hóf mál sitt með því að rök­styðja til­lög­una: „Dóms­málaráðherra Íslands, Jón Gunn­ars­son, braut gegn þing­skap­a­lög­um þegar hann bannaði Útlend­inga­stofn­un að af­henda þing­inu þau gögn sem þingið óskaði eft­ir á grund­velli 51. gr. þing­skap­a­laga. Með þessu at­hæfi sínu braut ráðherr­ann gegn einni af grunnstoðum þing­ræðis­ins á Íslandi. Hann braut gegn upp­lýs­inga­rétti Alþing­is Íslend­inga. Það er grafal­var­legt brot gegn þing­inu, brot sem þingið má ekki láta yfir sig ganga eins og ekk­ert hafi gerst.“

Ásak­an­ir á hend­ur dóms­málaráðherra eiga ræt­ur í ákvörðun hans um að breyta verklagi Útlend­inga­stofn­un­ar vegna af­greiðslu um­sókna um rík­is­borg­ara­rétt árið 2021. Meg­in­regl­an er sú að Útlend­inga­stofn­un af­greiðir um­sókn­ir um rík­is­borg­ara­rétt en auk þess veit­ir Alþingi rík­is­borg­ara­rétt með lög­um. Áður en Alþingi tek­ur af­stöðu til um­sókn­ar skal Útlend­inga­stofn­un fá um hana um­sögn lög­reglu­stjóra á dval­arstað um­sækj­anda, auk þess sem stofn­un­in sjálf skal gefa um­sögn til þings­ins. Um­sókn­ir sem Alþingi hafði til meðferðar voru í for­gangi hjá Útlend­inga­stofn­un – þ.e. þær voru tekn­ar fram fyr­ir (jafn­vel eldri um­sókn­ir hjá stofn­un­inni). Á síðustu árum hef­ur um­sókn­um um rík­is­borg­ara­rétt fjölgað gríðarlega og málsmeðferðar­tími lengst úr hófi. Umboðsmaður Alþing­is gerði sér­staka at­huga­semd við hversu lang­an tíma það tæki að af­greiða um­sókn­ir. Með hliðsjón af þessu ákvað ráðherra að um­sókn­ir skyldu af­greidd­ar í tímaröð, óháð því hvort viðkom­andi um­sókn lægi hjá Útlend­inga­stofn­un sjálfri eða hjá Alþingi. Jafn­ræðis um­sækj­enda skuli gætt. Aldrei, ólíkt því sem sum­ir stjórn­ar­and­stæðing­ar hafa haldið fram, neitaði dóms­málaráðherra Alþingi um gögn vegna af­greiðslu um­sókna um rík­is­borg­ara­rétt. Og aldrei skipaði hann Útlend­inga­stofn­un að neita Alþingi um upp­lýs­ing­ar og gögn.

51. gr. þing­skap­a­laga

Eðli máls sam­kvæmt er rétt­ur Alþing­is til að afla gagna og upp­lýs­inga rík­ur. Í 1. mgr. 51. gr. þing­skap­a­laga seg­ir að ef „að minnsta kosti fjórðung­ur nefnd­ar­manna krefst þess að nefnd fái aðgang að gögn­um frá stjórn­völd­um, þ.m.t. sjálf­stæðum stjórn­völd­um, eða að tekn­ar verði sam­an upp­lýs­ing­ar út af máli sem nefnd­in hef­ur til um­fjöll­un­ar skal stjórn­vald verða við beiðni nefnd­ar­manna þess efn­is eins skjótt og unnt er og eigi síðar en sjö dög­um frá mót­töku beiðninn­ar“.

Á grund­velli þessa ákvæðis ákvað alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd að óska eft­ir um­sögn­um frá Útlend­inga­stofn­un vegna þeirra um­sókna sem lágu fyr­ir nefnd­inni. Í minn­is­blaði skrif­stofu Alþing­is er kom­ist að þeirri niður­stöðu að nefnd­in geti nýtt sér ákvæði um­ræddr­ar grein­ar til að fara fram á að gögn séu af­hent. Hvergi er því hins veg­ar haldið fram að ráðherra hafi brotið lög.

Í liðinni viku var birt álits­gerð Laga­stofn­un­ar Há­skóla Íslands um upp­lýs­inga­rétt þing­nefnda sam­kvæmt 51. gr. laga um þingsköp Alþing­is og um­sagn­ir stjórn­valda sam­kvæmt 6. gr. laga um rík­is­borg­ara­rétt. Þar er kom­ist að þeirri niður­stöðu að Alþingi sé ekki rétt að beita um­ræddri grein þing­skap­ar­laga þegar óskað er „eft­ir um­sögn­um stjórn­valda í til­efni af um­sókn­um um veit­ingu rík­is­borg­ara­rétt­ar“. Í rétt­in­um til að fara fram á að upp­lýs­ing­ar verði „tekn­ar sam­an“ fel­ist ekki „að stjórn­vald skuli afla upp­lýs­inga og leggja mat á þær í formi um­sagna“.

Í nokkru hef­ur verið skondið að fylgj­ast með viðbrögðum stjórn­ar­and­stæðinga við álits­gerðinni. Hún er sögð smjörklípa og allt í einu snýst málið ekki um lög­brot held­ur stjórn­skip­un­ar­venju, sem ráðherra geti ekki ákveðið að breyta ein­hliða.

Í taumi Pírata

Líkt og skýrt kom fram í upp­haforðum Þór­hild­ar Sunnu, sem var fyrsti flutn­ings­maður van­traust­stil­lög­unn­ar á Jón Gunn­ars­son var ástæðan meint brot hans á 51. gr. þing­skap­a­laga. Og svo því sé haldið til haga þá hef­ur Þór­hild­ur Sunna aldrei farið leynt með að hún hafi horn í síðu dóms­málaráðherra. Í stuttri grein á vis­ir.is, 27. mars, skrifaði hún meðal ann­ars: „Dóms­málaráðherra Íslands, maður­inn sem ber ábyrgð á mál­efn­um lög­reglu, dóm­stóla og sýslu­manna og rétt­vís­inni á Íslandi svona al­mennt og yf­ir­leitt, hef­ur end­ur­tekið verið staðinn að lyg­um. Hann lýg­ur að þing­inu. Hann lýg­ur að fjöl­miðlum. Hann lýg­ur að al­menn­ingi.“

Fjór­ir flokk­ar stjórn­ar­and­stöðunn­ar stóðu að baki til­lög­unni; Pírat­ar, Viðreisn, Flokk­ur fólks­ins og Sam­fylk­ing­in. Í umræðunni féllu stór orð sem sum hafa ekki elst sér­lega vel.

„Dóms­málaráðherra braut lög sem ætlað er að tryggja að þingið ráði ferð í störf­um sín­um, braut lög sem ætlað er að tryggja að fram­kvæmd­ar­valdið ráði ekki för lög­gjaf­ar­valds­ins“, sagði Hanna Katrín Friðriks­son þing­flokks­formaður Viðreisn­ar í umræðunni. Sig­mar Guðmunds­son, flokks­bróðir Hönnu Katrín­ar, sakaði Jón Gunn­ars­son um lög­brot í sam­tali við mbl.is 29. mars. Hann sagðist ekki sjá „hvernig ráðherra get­ur setið áfram“. Í umræðum um van­traustið sagði hann meðal ann­ars: „Menn eru á hröðum flótta und­an grund­vall­ar­atriðum máls­ins. Þessa hugs­un, sem ráðherr­ar eru vænt­an­lega að ramma inn með at­kvæði sínu í dag, má kjarna í fleyg­um orðum: Ég á þetta, ég má þetta. Mér finnst þetta, ég ætla að gera þetta. Ég ætla ekki að virða lög sem tryggja rétt þings­ins til upp­lýs­inga.“

Björn Leví Gunn­ars­son Pírati tók til máls um at­kvæðagreiðsluna: „Umræðan hérna snýst dá­lítið um það, eins og hún er búin að vera, að við segj­um: Það er sýnt fram á að ráðherra hafi brotið lög.“ Pírat­inn Andrés Ingi Jóns­son sagði: „Við erum að ræða grund­vall­ar­atriði þar sem skjöl frá Útlend­inga­stofn­un koma jú við sögu, en grund­vall­ar­atriðið er það að Jón Gunn­ars­son dóms­málaráðherra beitti sér gegn af­hend­ingu gagna til Alþing­is. Hann fékk stofn­un­ina með sér í það lið og gerði hana sam­seka í brot­um á 51. gr. þing­skap­a­laga.“

Sá er þetta skrif­ar tók þátt í umræðum um van­traustið og sagði það hafa „komið aðeins illa við mig að skynja það hversu per­sónu­leg andúð á póli­tísk­um and­stæðing­um er far­in að vera ríkj­andi þátt­ur í þess­um þingsal á und­an­förn­um mánuðum“. En ég hafi fengið enn eina staðfest­ing­una á því „að Pírat­ar marka stefn­una hjá stjórn­ar­and­stöðunni, taka for­ystu í upp­hlaups­mál­um. Flokk­ur fólks­ins, Viðreisn og Sam­fylk­ing­in fylgja á eft­ir og eiga í fullu fangi með að halda í við Pírata.“ Þessi orð komu illa við nokkra stjórn­ar­and­stæðinga sem gerðu há­reysti í þingsaln­um. „Ég heyri það, að þetta kem­ur illa við suma hér. Ég heyri það. En hvort upp­sker­an verður eins og til er sáð fyr­ir þessa þrjá flokka sem fylgja Pír­öt­um og leiðbein­ing­um þeirra og for­ystu verður þannig að það skili ár­angri á kjör­degi á eft­ir að koma í ljós. Ég ætla að ef­ast um það.“

Rétt­ur þing­manna til að leggja fram van­traust á ein­staka ráðherra eða rík­is­stjórn í heild sinni er ótví­ræður. Þenn­an rétt nýttu fjór­ir stjórn­ar­and­stöðuflokk­ar und­ir for­ystu Pírata. Von­in um að vinna póli­tísk strand­högg rætt­ust ekki. Eft­ir standa stór­yrðin líkt og minn­is­varði um upp­hlaup sem engu skilaði.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. maí 2023.