Framsókn og flugvallarandstæðingar láta verkin tala

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Fyrirhuguð byggð í ,,Nýja Skerjafirði“ mun þrengja að starfsemi Reykjavíkurflugvallar og skerða notagildi hans frá því sem nú er.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu starfshóps innviðaráðuneytisins um áhrif aukinnar byggðar á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.

Skýrslan var gerð í kjölfar þess að Isavia hefur lýst áhyggjum af áhrifum viðbótarbyggðar í Skerjafirði á flugöryggi og þjónustugetu flugvallarins. Í skýrslunni segir að ljóst sé að svokölluð kvika muni aukast yfir flugvallarsvæðinu með tilkomu ,,Nýs Skerjafjarðar“ samkvæmt fyrirliggjandi skipulagi. Þar sem meðalvindhraðabreyting fari nú þegar yfir viðmiðunarmörk, þurfi að gæta sérstakrar varúðar við að bæta við fleiri áhættuþáttum, svo sem aukinni kviku. Mun ýtarlegri greiningu og mælingar vanti til að meta hversu mikil þessi breyting verði.

Margþætt hlutverk Reykjavíkurflugvallar

Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki í innanlandsflugi, sjúkraflugi og björgunarflugi. Sjúkraflugið hefur aukist mikið á síðustu árum og er nú almennt viðurkennt sem mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Þá gegnir Reykjavíkurflugvöllur mikilvægu hlutverki í millilandaflugi sem varaflugvöllur Keflavíkurflugvallar. Skert notagildi Reykjavíkurflugvallar gæti hæglega leitt til margvíslegra erfiðleika og minni þjónustu í farþegaflugi og sjúkraflugi landsins.

Ótrúlegt er að í umræðum skuli flugvallarandstæðingar enn tala fyrir lagningu nýs alþjóðaflugvallar í Hvassahrauni þrátt fyrir að löngu sé orðið ljóst að sú hugmynd sé óraunhæf. Jarðvísindamenn hafa varað við því að flugvöllur verði lagður þar vegna jarðhræringa og eldgosahættu. Atvinnuflugmenn hafa um langa hríð varað við flugvelli í Hvassahrauni vegna lélegra aðflugsskilyrða og sviptivinda. Síðast en ekki síst yrði kostnaður vegna lagningar slíks flugvallar gífurlegur.

Saumað að flugvellinum

Fjölmörg atriði í skýrslunni sýna að óvarlegt er að hefja uppbyggingu nýrrar byggðar, sem skerða muni notagildi Reykjavíkurflugvallar. Meirihluti borgarstjórnar lætur varnaðarorð sérfræðinga hins vegar sem vind um eyru þjóta. Á borgarstjórnarfundi 2. maí 2023, samþykkti meirihlutinn deiliskipulagsbreytingu og lóðarúthlutun vegna byggingaráforma við flugvöllinn.

Pólitísk ákvörðun

Það er því pólitísk ákvörðun meirihluta Framsóknarflokks, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar að skerða notagildi Reykjavíkurflugvallar með þessum hætti.

Ekki kemur á óvart að Samfylkingin og fylgiflokkar hennar vinni gegn Reykjavíkurflugvelli. Um árabil hefur það verið eitt helsta keppikefli þeirra að þrengja að vellinum og flæma þannig flugvallarstarfsemi úr borginni. Það kemur hins vegar á óvart að Framsóknarflokkurinn hafi nú gert þessa stefnu Samfylkingarinnar að sinni.

Árið 2014 bauð Framsóknarflokkurinn fram til borgarstjórnar undir heitinu ,,Framsókn og flugvallarvinir“ til að ítreka stuðning sinn við Reykjavíkurflugvöll. Vegna viðsnúnings borgarfulltrúar Framsóknar í málinu er eðlilegt að spurt sé: ,,Mun flokkurinn næst bjóða fram undir heitinu ,,Framsókn og flugvallarandstæðingar?“

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 4. maí 2023.