Sameining Kvennó og MS

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Á dögunum fjölluðu fjölmiðlar um mögulega sameiningu eða aukið samstarf nokkurra framhaldsskóla á landinu. Í kjölfarið voru haldnir hitafundir í Kvennaskólanum og Menntaskólanum við Sund sem voru meðal þeirra skóla fjallað var um. Aðdragandi umfjöllunarinnar voru fyrirmæli menntamálaráðuneytisins til skólanna um að þeir könnuðu hversu fýsilegur kostur samruni eða annað, breytt framtíðarskipulag væri. Tilkynning um þetta kom kennurum skólanna í opna skjöldu og hefur vakið upp mikla umræðu og hörð viðbrögð.

Tímasetning málsins vekur nokkra furðu. Fyrirmæli ráðuneytisins bárust nefnilega viku eftir að mennta- og barnamálaráðherra hafði skipað stýrihóp um eflingu framhaldsskóla. Verkefni hópsins var að leggja fram tillögur að framtíðarskipulagi til að auka gæði náms og bregðast við breytingum í umhverfi skólanna. Aðeins nokkrum dögum síðar höfðu skólameistarar átta skóla á framhaldsskólastigi hafið viðræður um aukið samstarf og/eða sameiningu. Menntaskólinn við Sund og Kvennaskólinn hafa tvær vikur til að framkvæma könnun varðandi samruna. Í lok maí er síðan áætlað að mennta- og barnamálaráðherra taki ákvörðun um framhaldið.

Ráðherrann hefur sagt að ekkert hafi verið ákveðið í þessum efnum, heldur sé vilji til samtals um málið. Mál sem þessi séu viðkvæm og æskilegt sé að frumkvæðið að lausnum komi innan frá, en ekki að ofan.

Skemmst er að minnast fyrri gerðar menntamálaráðuneytisins sem stytti nám til stúdentsprófs um eitt ár. Ég tek því undir orð ráðherrans og vona að þarna verði vandað til verka og ekki anað að neinu. Af þeim sökum hef ég lagt inn fyrirspurn til ráðherrans á Alþingi um þetta mál þar sem ég óska eftir upplýsingum um aðdraganda og tímasetningu málsins. Þá hef ég óskað eftir upplýsingum um forsendur fyrir vali þessara tveggja skóla og um af hverju skólameisturum annarra skóla var ekki falið að hefja sambærilegar viðræður.

Greinin birtist fyrst á Vísi 3. maí 2023.