Vill Viðreisn skera niður ríkisútgjöld?

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Í síðustu viku ræddum við þingmenn fjármálaáætlun fjármála- og efnahagsráðherra á Alþingi. Eins og áætlunin ber með sér eru markmiðin í ríkisfjármálunum skýr; að ná niður verðbólgu og verja lífskjör okkar og kaupmátt. Nú þegar hefur náðst mikill árangur við að draga úr halla ríkissjóðs og stjórnvöld hafa sett sér skýr markmið um að stöðva hækkun skulda. Áætlanir stjórnvalda um að koma okkur út úr krísunni hafa ekki aðeins staðist, heldur er útlit fyrir að markmiðum þeirra verði náð á undan áætlun. Að því sögðu vil ég ekki hrósa stjórnvöldum um of, þau mættu sannarlega standa sig betur þegar kemur að aðhaldi og hagræðingu í ríkisrekstri.

Það kom svo sem ekki á óvart að þingmenn stjórnarandstöðunnar væru ekki par hrifnir af áætluninni og hafa þingmenn Viðreisnar verið hvað duglegastir við að gagnrýna hana. Ég hlustaði því af athygli á málflutning þeirra og tillögur, en gagnrýni þeirra snýr ekki síst að því að ekki sé nógu langt gengið í aðhaldi og hagræðingu.

Þingmenn Viðreisnar tóku flestir til máls í umræðunni. Þar fundu þeir að því að dregið væri úr framkvæmdum ríkisins og fjárfestingarverkefnum. Þar ætti að horfa til tilgangs þeirra fremur en að þeim yrði kippt úr sambandi til þess að jafna sveiflur. Þeir gerðu athugasemd við lækkun fjárframlaga til málaflokka mennta- og barnamálaráðherra og höfðu áhyggjur af því hvort nægum fjármunum væri varið til löggæslu á tilteknum svæðum. Þingmenn Viðreisnar höfðu jafnvel áhyggjur af burðum Ríkisútvarpsins til að standa undir hlutverki sínu ef þeir hefðu ekki úr jafn miklum fjármunum að moða! Það yrði að bæta RÚV skaðann ef það yrði af tekjum þar sem fá tækifæri væru til niðurskurðar. Það ætti að verja heilbrigðiskerfið, almannaþjónustu og löggæslu – tækifærin til niðurskurðar lægju annars staðar, en hvergi tilgreint hvar.

Tillögur og aðfinnslur þingmanna við fjármálaáætlun eru nefnilega mjög afhjúpandi. Það er eitt að tala um aðhald og hagræðingu, en þegar betur er að gáð skera þingmenn Viðreisnar sig ekki frá öðrum stjórnarandstöðuflokkum sem fara fram á aukin fjárútlát og gagnrýna það aðhald sem þó er sýnt.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. apríl 2023